Reitir hafa náð samkomulagi Íslenskir fasteignir ehf. um sölu á svokölluðum Orkureit fyrir 3.830 milljónir króna. Um er að ræða fasteignina við Ármúla 31 ásamt öllum nýbyggingarheimildum á lóðinni í heild í tengslum við nýtt deilisskipulag sem hefur verið auglýst og er nú í úrvinnslu hjá Reykjavíkurborg. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reitum.
Þar er tekið fram að kaupin nái ekki til fasteignarinnar við Suðurlandsbraut 34, gamla Rafmagnsveituhúsið, sem gegnt hefur stóru hlutverki í baráttu við kórónuveirufaraldurinn.
Þá kemur fram að kaupverðið sé greitt með peningum við undirritun kaupsamnings og að samkomulagið sé gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun á hinu selda og gildistöku deiliskipulags. Gert er ráð fyrir að undirritun kaupsamnings og afhending eigi sér stað á fyrsta ársfjórðungi 2022.
Með samkomulaginu skuldbinda Reitir sig til samstarfs um hönnun, útfærslu og kaupa á um 1.520 fermetrum af atvinnuhúsnæði sem byggt verður á lóðinni.
Salan mun ekki hafa áhrif á rekstrarafkomu Reita árið 2021 þar sem afhending hins selda mun ekki eiga sér stað fyrr en í ársbyrjun 2022. Með sölunni mun rekstrarhagnaður félagsins lækka um 70 m.kr. á ársgrundvelli. Söluhagnaður vegna viðskiptanna er áætlaður um 1.300 m.kr.
Orkureiturinn er miðsvæðis í borginni, á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar og nær einnig upp að Ármúla. Reiturinn liggur við fyrirhugaða Borgarlínu, gegnt útivistarsvæði í Laugardal og í nálægð við fjölbreytta verslun og þjónustu, m.a. í Skeifunni. Tillagan gerir ráð fyrir að lágreist hús sem standa við Ármúla víki fyrir 3-8 hæða nýbyggingum í borgarmiðuðu skipulagi en gamla Rafmagnsveituhúsið fær virðingarsess á lóðinni. Að hámarki verða 436 íbúðir á reitnum ásamt um 4-6 þúsund fermetrum atvinnuhúsnæði. Hámarksbyggingarmagn skv. nýju deiliskipulagi er rúmlega 44 þúsund fermetrar.
Finna má nánari upplýsingar á www.orkureitur.is