NPR skýrir frá þessu. Fram kemur að Trump og lögmenn hans segi í stefnunni að skjölin sem nefndin vill fá afhent falli undir sérstaka lagaheimild sem tryggir ákveðinn trúnað á milli sitjandi forseta og ráðgjafa hans. „Lögin okkar heimila ekki svona fljóthuga og alvarlega aðgerð sem beinist gegn forseta og nánustu ráðgjöfum hans,“ segir í stefnunni sem var lögð fyrir alríkisdómstól í Washington D.C.
Með vísan í sömu lagaheimild hefur Trump hvatt embættisfólk úr stjórn hans til að neita að bera vitni fyrir nefndinni en í henni sitja sjö Demókratar og tveir Repúblikanar.
Sérfræðingar í lögum segja að það séu aðeins sitjandi forsetar sem geta vísað í heimildina um trúnað um samtöl þeirra við ráðgjafa sína.
Allt frá því að stuðningsmenn Trump réðust á þinghúsið hefur hann barist gegn öllum rannsóknum á atburðum þessa örlagaríka dags. Fimm létust í árásinni og rúmlega 600 hafa verið ákærðir fyrir að hafa tekið þátt í henni.
Michael Gwin, talsmaður Hvíta hússins, sagði stefnu Trump gegn þingnefndinni vera „einstaka og ógn við lýðræðið“.