Ásgerður Jóna, stofnandi og formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, þakkar Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir að „bjarga jólunum annað árið í röð.“
Í fréttatilkynningu frá Ásgerði sem ber yfirskriftina – „Kaupfélag Skagfirðinga bjargar jólunum annað árið í röð“- greinir Ásgerður frá því að Fjölskylduhjálp hafi borist „gríðarlega rausnarleg aðstoð“ frá Kaupfélagi Skagfirðinga, annað árið í röð. Með þessum stuðningi muni Fjölskylduhjálp ná að aðstoða þúsundir í nóvember og desember.
„Kaupfélag Skagfirðinga hefur nú, annað árið í röð, rétt fram hjálparhönd til þeirra þúsunda sem lifa við skort á Íslandi,“ segir í tilkynningu. „Barnafjölskyldum, öryrkjum, atvinnulausum og elri borgurum eru skammtaðar upphæðir sem festa þessa hópa í fátækragildru, sem leiðir af sér varanlegan skaða á bæði andlegri og líkamlegri heilsu þessa hóps.“
Í tilkynningu segir að samstarf Fjölskylduhjálpar og Kaupfélagsins hefjist 1. nóvember og verða tvær úthlutanir í hverri viku fram að jólum.
„Fjölskylduhjálp Íslands mun með stuðningi Kaupfélagsins ná að aðstoða þúsundir í nóvember og desember.
Samstarfið mun hefjast 1. nóvember næstkomandi og mun standa fram að áramótum. Fjölskylduhjálp Íslands mun vera með tvær úthlutanir í hverri viku fram að jólum og mun stuðningur KS gera gæfumuninn fyrir þær þúsundir sem annars gætu ekki haldið jólin eins og hefð er fyrir hér á landi.
Fjárráð þessa hóps leyfa ekki mikið þó jólin séu á næsta leiti og erum við því mjög þakklát Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir þessa gríðarlega rausnarlegu aðstoð sem innifelur allt það besta sem til hátíðarbrigða er borið á borð yfir hátíðarnar.“