Samkvæmt heimildum Orðsins hafa undanfarnar vikur átt sér stað samningaviðræður milli fyrrum samstarfsmanna um framleiðslu og útgáfu á podcast þætti Sölva Tryggvasonar um eignarhald á þáttunum. Herma heimildirnar að allir 107 áður birtir þættir Sölva séu undir, en einnig áður óbirt efni.
Þann 12. maí, eða viku eftir að Sölvi var kærður til lögreglu, voru þættirnir umræddu teknir niður af öllum hlaðvarpsveitum og af YouTube rás hans. Kom fram í fréttum þá að „beiðni þess efnis“ hafi borist frá framleiðslufyrirtækinu og auglýsingastofunni KIWI, en KIWI framleiddi efnið með Sölva. Hið rétta er, samkvæmt heimildum Orðsins, að Sölvi hafi sjálfur óskað eftir því að þættirnir yrðu faldir.
Þættirnir hans Sölva voru óumdeilt vinsælustu hlaðvarpsþættir Íslands á sínum tíma. Samkvæmt upplýsingum DV hlustuðu 35 þúsund Íslendingar á hvern þátt, að meðaltali. Þá var mikil eftirspurn eftir því að komast í þáttinn sem viðmælandi. Var um það rætt á sínum tíma að það væri hreinlega slegist um að komast þar að. Stóðu stjórnmálamenn, pólitískir aðstoðarmenn þeirra og annað áhrifafólk í biðröðum á tröppum Sölva, áður en það breyttist svo allt í fyrstu vikunni í maí.
Á meðal viðfangsefna þáttanna sem um ræðir eru viðskiptajöfrar, afreksfólk í íþróttum, ráðherrar, leikarar, fjölmiðlafólk, vísindamenn og áhrifavaldar. Óvíst er hvort tilgangur átakanna um eignarhaldið sé að koma þáttunum aftur í birtingu, en þó herma óstaðfestar heimildir Orðsins að svo gæti vel farið að þeir verði komnir aftur í loftið innan tíðar.
Þátturinn þar sem Sölvi og lögmaður hans þáverandi, Saga Ýrr Jónsdóttir, ræddu ásakanir á hendur honum, var númer 107 og síðastur í röðinni. Var það jafnframt vinsælasti þáttur Sölva. Mun hann hafa farið í 100.000 áhorf á YouTube áður en hann var tekinn niður.
Líkt og DV sagði frá fór Sölvi erlendis skömmu eftir að ásakanirnar flutu upp á yfirborðið. Heyrðist hvorki né sást til hans um langa hríð þar til myndband náðist af Sölva hlaupandi á ströndinni í Barcelona. Mun hann hafa haldið til þar, að minnsta kosti í einhvern tíma.