Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að tölur sem ná frá 1. júlí til 30. september sýni að 17% þeirra COVID-19 sjúklinga sem þurftu að vera í öndunarvél voru óbólusettar barnshafandi konur.
Barnshafandi konur voru 32% af öllum konum á aldrinum 16 til 49 ára sem þurftu á svokallaðri ECMO-aðstoð að halda. Henni er beitt þegar lungu sjúklinga eru svo sködduð að öndunarvél nær ekki að tryggja nauðsynlegt súrefnisflæði.
Jacqueline Dunkley-Bent, yfirljósmóðir landlæknisembættisins, segir að tölurnar séu „þörf áminning um að bólusetning gegn COVID-19 geti haldið þér, barni þínu og ástvinum þínum öruggum og fjarri sjúkrahúsum“.
The National Childbirth Trust segir að tölurnar sýni svart á hvítu að þessi viðkvæmi hópur hafi ekki fengið næga athygli þegar slakað var á sóttvarnaráðstöfunum.
Sérfræðingar hafa lagt áherslu á að ekkert hafi komið fram sem bendi til að bóluefni séu hættuleg fyrir ófædd börn. Sky News hefur eftir Jo Mountfield, varaformanni samtaka fæðingar- og kvensjúkdómalækna, að „sífellt fleiri gögn segi okkur að bólusetning feli ekki í sér aukna áhættu á fósturmissi, feli ekki í sér aukna áhættu á andvana fæðingu og feli ekki í sér aukna áhættu á fæðingu fyrir tímann“. Á hinn bóginn sýni tölur að að það séu miklar líkur á alvarlegum COVID-19 veikindum ef barnshafandi konur veikjast.