Lögreglumenn og réttarmeinafræðingar komu til Ilulissat á miðvikudaginn til að aðstoða við rannsókn málsins.
Ekstra Bladet segir að upplýsinga hafi verið leitað í Grænlandi og Danmörku um hvort einhvers sé saknað en án árangurs. Ljóst sé að líkamshlutarnir séu af karlmanni af grænlensku bergi brotnu. Haft er eftir Jan Lambertsen, yfirmanni grænlensku rannsóknarlögreglunnar, að lögreglan sé við það að geta slegið því föstu hvert fórnarlambið er. Aðeins sé eftir að ganga úr skugga um nokkur atriði áður en hægt verði að slá því alveg föstu af hverjum líkið er.
Hann sagði að margar ástæður geti verið fyrir að ekki hafi verið tilkynnt um hvarf hins látna. Nú sé veiðitímabilið í fullum gangi og margir séu því fjarverandi um langan tíma og því geti verið að fólk átti sig ekki á að einhvers sé saknað. Svo séu nokkrir heimilislausir og fleira geti einnig spilað inn í.
Haft er eftir honum að miðað við það sem hefur fundist í sorpbrennslunni þá sé ekkert sem bendir til að um slys sé að ræða og því sé gengið út frá því að um morð sé að ræða. Hann sagðist telja að næg gögn liggi nú fyrir til að slá því föstu hvernig viðkomandi lést.
Lögreglan er enn að fínkemba sorpbrennsluna í leit að líkamshlutum og sagðist hann vonast til að þeirri leit ljúki nú um helgina. Fara þarf í gegnum allt það sorp sem hefur safnast upp í brennslunni.