Orðið á götunni er að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi skroppið í sólina á Tenerife. Það er hollt og nauðsynlegt hverjum þingmanni að taka sér hvíld frá amstri dagsins og hlaða rafhlöðurnar fyrir átökin framundan. Svokölluð nefndarvika er ágæt til þess fallin að kúpla sig út og njóta lífsins, en Brynjar er ekki formaður neinnar nefndar og getur því legið áhyggjulaus í sólinni, á fullum launum, þar sem hann kallaði ekki eftir varamanni.
Hver veit nema Brynjar taki við keflinu sem Árni Páll Árnason skildi eftir sig á þinginu, en hann þótti jafnan vera hörundsdekkri en almennt gengur og gerist og eðlilegt þykir, meðal bleiknefja á Alþingi. Var gjarnan talað um dökkbrúna Chesterfield sófa í því sambandi. Hvort brúnka Brynjars komist á sama stall og Árna Páls verður þó að teljast ólíklegt, þar sem Árni Páll útskýrði sjálfur að hann væri einfaldlega þannig af guði gerður, meðan Brynjar þarf að treysta á sællega sólbrúnku, eða tvöfaldan túrbótíma í ljósabekk. Með nýjum perum.