Leikkonan og raunveruleikastjarnan Lisa Rinna hélt að henni og paparazzi ljósmyndurunum, sem elta hana og fjölskyldu hennar á röndunum, kæmu vel saman. Þar til hún var kærð fyrir að birta paparazzi ljósmynd af sér sjálfri á samfélagsmiðlum.
„Ég hef alltaf litið svo á að þetta samband hagnist okkur báðum,“ segir Lisa í samtali við Los Angeles Times.
„Þetta var hluti af leiknum ef þú ætlaðir að vera í þessum iðnaði. Ég hef alltaf verið vingjarnleg. Ég hef aldrei rifist við þá, aldrei hlaupið frá þeim. Börnin mín ólust upp við að ljósmyndarar stukku úr runna í Malibu. Við höfum átt mjög gott samband við fjölmiðla og paparazzi ljósmyndara. Þess vegna er ég svona hissa yfir þessu.“
Backgrid, sem er umboðsskrifstofa paparazzi ljósmyndara, kærði Lisu í júní. Backgrid heldur því fram að Lisa hefði gerst brotleg við höfundarréttarlög með því að deila átta myndum af henni og tveimur dætrum hennar á Instagram, myndum sem paparazzi ljósmyndarar höfðu tekið.
Umboðsskrifstofan fór fyrst fram á að Lisa myndi greiða þeim sem samsvarar 155 milljónum króna í skaðabætur. Þegar hún neitaði höfðuðu þeir málsókn gegn henni.
Lisa er ekki fyrsta stjarnan til að lenda í þessu en hún ætlar að berjast á móti. Hún hefur beðið dómara um að vísa málinu frá á þeim forsendum að umboðsskrifstofan hefur „í raun gert höfundaréttarlögin að vopni“ til þess að afla sér tekna sem þeir misstu í heimsfaraldrinum.
Í hennar málflutningi bendir Lisa á að af þeim 50 höfundarréttarmálsóknum sem Backgrid hefur höfðað síðan 2017 er um tveir þriðju þeirra síðan 2020 og 2021.
Rök Lisu eru að Backgrid hefur misst tekjur í heimsfaraldrinum því stjörnurnar hafa haldið sig mikið heima fyrir og þar með minni vinna fyrir paparazzi ljósmyndara.
Eins og fyrr segir er Lisa ekki fyrsta stjarnan til að lenda í þessu. Í ágúst 2018 greindi Khloé Kardashian frá því að hún hefði verið kærð fyrir að birta paparazzi ljósmynd.
Yes!! I have to license some of the images first. A paparazzi sued me in the past for reposting an image of MYSELF. So now it just takes me a little longer because I have to go and license the images so they don’t get my 💰 MAKES NO SENSE. https://t.co/GNUWUWUxZl
— Khloé (@khloekardashian) August 19, 2018