Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar sem sótti SC Cambuur heim í hollensku úrvalsdeild karla í dag.
AZ Alkmaar hefur átt slaka byrjun á tímabilinu og hafði einungis unnið einn af fyrstu sex leikjum sínum í deildinni.
Dani De Wit kom AZ yfir á 17. mínútu og Owen Wijndal tvöfaldaði forystuna 16 mínútum síðar. Albert Guðmundsson fékk gult spjald fyrir peysutog þegar að sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Jordy Clasie kom AZ í 3-0 eftir klukkutíma leik en Robert Uldrikis minnkaði muninn fyrir heimamenn á 72. mínútu. Meira var ekki skorað í leiknum og lokatölur 3-1 fyrir AZ Alkmaar. Albert Guðmundsson var tekinn af velli á 66. mínútu.
Þetta var þriðji sigur AZ í deildinni á tímabilinu og liðið er nú í 12. sæti með 9 stig. SC Cambuur er í 8. sæti með 12 stig.