Egill Fannar Reynisson, framkvæmdastjóri Húsgagnahallarinnar, Betra Baks og Dorma, gerir alvarlegar athugasemdir við lagersölu á handofnum persneskum teppum sem stendur yfir nú um helgina.
Er þar boðinn afsláttur upp á allt að 360 þúsund krónur og feikilega mikil verðlækkun á öllum auglýstum vörum, en lagersalan er auglýst með áberandi hætti í Morgunblaðinu í dag. Egill bendir hins vegar á að fyrirtækið er nýstofnað og útsalan mun standa í stuttan tíma.
„Það verða allir á bak og burt þegar Neytendastofa fer að aðhafast í málinu. Það er sjálfsagt að hver sem er opni verslun hér á landi en það skal virða lög og regluverk,“ segir Egill og útskýrir að risaverðlækkun á vörum sem hafa ekki verið áður í sölu sé bara skáldskapur og á skjön við lög.
„Þú getur ekki boðið afslátt af upphaflegu verði ef varan hefur ekki verið í sölu. Um þetta gilda lög sem þarf að fara eftir. Hér er auglýstur risaafsláttur af einhverju bullverði. Auðvitað lætur fólk glepjast af svona risagylliboðum. Það er ekki búið að festa þetta verð í okkar regluverki þannig að þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið,“ segir Egill enn fremur.
Hann tekur fram að hann hafi ekkert út á Morgunblaðið að setja í þessu samhengi og það sé ekkert óeðlilegt við að birta auglýsinguna. Þeir viðskiptahættir sem auglýsingin endurspegli séu hins vegar gagnrýnisverðir. „Hvort sem það er Húsgagnahöllin eða aðrar verslanir, þá þurfum við verslanaeigendur að fylgja lögum og reglum,“ segir hann og í því felist meðal annars að bjóða ekki afslætti af vörum sem hafa aldrei verið til sölu áður.
„Það er ekkert leyndarmál að við seljum mottur í Húsgagnahöllinni, þetta snýst ekki um það heldur er ég að benda á þetta svona almennt. Hér er verið að fara á skjön við lög. Okkur verslanaeigendum er gert að fara eftir lögum og það ætti að gilda um alla sem bjóða vörur til sölu. Við gerum okkar til að fylgja settum reglum, sem og önnur íslensk fyrirtæki.“
Í opinberum reglum um útsölur segir: „Þegar auglýst er lækkað verð á vöru eða þjónustu skal fyrra verð vera það verð sem varan var seld á áður en til lækkunar kom.Seljandi skal geta sannað að vara eða þjónusta hafi verið seld á því verði sem tilgreint er sem fyrra verð.“
Þess má geta að í Morgunblaðinu er áhugavert viðtal við teppasalann sem hér á í hlut. Hann heitir Alan Talib og er nú staddur á Íslandi með 4.200 persnesk teppi sem hann boðar útsölu á. Segist hann eiga í heild um 25.000 teppi.