Lognmolla liggur nú yfir pólitíkinni eftir kosningarnar síðustu helgi. Nema þó yfir Inga Tryggvasyni, höfuðpaur yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Þar er eldrauð viðvörun í gangi.
Óumdeilt þykir, eins og leiðarahöfundar bæði Fréttablaðsins og Morgunblaðsins hafa keppst við að benda á síðustu daga, að ríkisstjórnin hafi sigrað síðustu kosningar. Ákall er eftir áframhaldandi setu núverandi ríkisstjórnar en þó ekki öðruvísi en undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Varnarsigur Sjálfstæðisflokksins og sú staðreynd að hann er enn stærstur flokka með um fjórðung greiddra atkvæða þykir veita flokknum skýrt umboð til þess að sitja áfram í ríkisstjórn Katrínar. Sama á við um fylgisaukningu Framsóknar.
Eftir stendur ráðherrakapallinn sem formenn stjórnarflokkanna standa nú frammi fyrir.
Framsókn mun vilja varpa kosningasigri sínum í aukin áhrif innan ríkisstjórnarinnar og þar er fjölgun ráðherrastóla auðvitað nærtækust.
Á síðasta kjörtímabili voru æðstu embætti ríkisstjórnarinnar og þingsins svona skipuð:
Forsætisráðuneytið: Katrín Jakobsdóttir (VG)
Fjármála- og efnahagsráðherra: Bjarni Benediktsson (D)
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: Sigurður Ingi Jóhannsson (B)
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Kristján Þór Júlíusson (D) – Ekki lengur á þingi
Heilbrigðisráðherra: Svandís Svavarsdóttir (VG)
Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra: Guðlaugur Þór Þórðarson (D)
Ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra: Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir (D)
Mennta- og menningarmálaráðherra: Lilja D. Alfreðsdóttir (B)
Félags- og barnamálaráðherra: Ásmundur Einar Daðason (B)
Umhverfis- og auðlindaráðherra: Guðmundur Ingi Guðbrandsson (VG)
Dómsmálaráðherra: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (D)
Forseti Alþingis: Steingrímur J. Sigfússon (VG) – Ekki lengur á þingi
Formaður fjárlaganefndar Alþingis: Willum Þór Þórsson (B)
Af þessum embættum sátu Framsókn í fjórum af þrettán. Vinstri grænir í öðrum fjórum og Sjálfstæðismenn í fimm og þar á meðal í utanríkis- og fjármálunum.
Viðbúið er að Framsókn mun vilja fjölga sínum stólum. Er orðið á götunni á þá leið að rætt sé um að fjölga ráðherrum um einn og búa til embætti loftslagsmálaráðherra, þá væntanlega undir umhverfisráðuneytinu. Nú fyrst Steingrímur J. Sigfússon er stiginn úr stóli forseta Alþingis er spurning hvort Framsókn myndi e.t.v. vilja taka stól forseta Alþingis í skiptum fyrir fyrrnefnt loftslagsmálaráðuneyti.
Viðbúið er að stokkað verði frekar upp í ráðuneytum. Þó er það þannig að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast hafa komið sér býsna vel fyrir í sínum ráðuneytum, fyrir utan Kristján Þór sem er auðvitað hættur. Sama mætti segja um Framsóknarmenn. Þá eiga helstu kosningamál Framsóknar heima í þeim ráðuneytum sem þeir þegar liggja á, og væri vafalaust vont að missa þau ætla þeir sér að standa við stóru orðin úr kosningabaráttunni.
Sjálfstæðismenn myndu þó, samkvæmt orðinu á götunni, ekki fúlsa við heilbrigðisráðuneytinu. Eftir annasamt kjörtímabil hjá Svandísi Svavars í því ráðuneyti má vænta þess að hún verði frelsinu fegin kæmist hún í annan málaflokk. Þá hefur því jafnframt verið hvíslað að haldist embætti forseta Alþingis í búri Vinstri grænna liggi beinast við að Svandís Svavarsdóttir taki það að sér. Svandís er sögð, þrátt fyrir fæð skoðanasystkina, njóta trausts þvert á þingflokka, rétt eins og Steingrímur J.