Tölurnar eru fengnar úr opinberum miskabótaskrám varnarmálaráðuneytisins sem samtökin Action on Armed Violence (AOAV) fengu aðgang að. The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að eitt alvarlegasta tilfellið, sem fjallað er um í skránum, snúist um afganska fjölskyldu sem fékk sem svarar til um 800.000 íslenskra króna í bætur eftir að fjögur börn úr henni voru fyrir mistök skotin til bana 2009 af breskum hermönnum.
Í sumum tilfellum greiddi varnarmálaráðuneytið aðeins sem svarar til nokkurra tuga þúsunda íslenskra króna í bætur. Til dæmis fékk ein fjölskylda sem svarar til um 100.000 íslenskra króna eftir að 10 ára piltur lést í desember 2009.
AOAV fór fram á aðgang að skránum og fór yfir þær í kjölfar brotthvarfs vestrænna herliða frá Afganistan í ágúst. The Guardian hefur eftir Murray Jones, sem stýrði yfirferðinni á gögnunum, að erfitt hafi verið að kortleggja kringumstæðurnar í öllum málunum því atvikalýsingin hafi oft á tíðum verið mjög stutt. „Það er ekki gaman að lesa þessi skjöl. Þetta ljóta orðalag í þeim þýðir að mörg hundruð hörmuleg dauðsföll, þar á meðal margra barna, eru ekki annað en einföld upptalning,“ er haft eftir honum.