Niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar, sem 2.700 manns tóku þátt í, sýna að fólk sem sefur nakið sefur betur. Samkvæmt niðurstöðunum þá var 26.5% af svefni hinna nöktu REM-svefn en það er hinn djúpi svefn þar sem heilinn og líkaminn hvílast best. Hjá þeim sem ekki sváfu naktir var hlutfallið 17,5%. Til að svefn teljist heilbrigður þá þarf REM-svefninn að vera um 25% af heildarsvefninum.
Auk þess að bæta svefngæðin þá hefur það fleiri jákvæða hluti í för með sér að sofa nakin(n). Til dæmis vaknar fólk ekki upp með teygjuför eftir náttbuxurnar, í bol sem hefur ekki snúist með líkamanum þegar fólk byltir sér í svefni og líkamshitinn er lægri. Þess utan eykur nektarsvefn sæðisframleiðslu karla og umhverfi sæðisfrumna verður betra því eistun hitna ekki of mikið og þrýstast ekki saman í þröngum nærbuxum. Fyrir konur gerir þetta kynfærin heilbrigðari því það loftar betur um og minni líkur eru á að fá sýkingu og sveppi.
Lægri hiti þýðir einnig, fyrir flesta, að líkamshitinn er lægri og það eykur brennslu hitaeininga á meðan sofið er. Þá liggur nú eiginlega í augum uppi að ef fólk sefur nakið aukast líkurnar á að kynlífslöngun taki völdin ef það hefur einhvern nakinn sér við hlið. Niðurstöður breskrar könnunar sýna að fólk, sem sefur nakið, er yfirleitt ánægðra með kynlíf sitt.