fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Ekki í boði að gera bara betur næst – Segir endurkosningu í NV-kjördæmi nauðsynlega

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 28. september 2021 20:59

Skjáskot RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landskjörstjórn hefur bókað að ekki hafi borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis um að meðferð kjörgagna í alþingiskosningunum hafi verið fullnægjandi. Það mun koma í hlut Alþingis að annaðhvort staðfesta úrslit kosninganna eða úrskurða að kjósa þurfi upp á nýtt í Norðvesturkjördæmi.

Málið var rætt í Kastljósi kvöldsins á RÚV og þar útskýrði Karl Hólmar Ragnarsson lögmaður að landskjörstjórn myndi funda aftur þann 5. október, gefa út kjörbréf og senda til þingmanna. Þegar Alþingi komi saman næst verði skipun kjörbréfanefndar fyrsta mál á dagská og hún ræðir hvort gera eigi kosninguna í Norðvesturkjördæmi ógilda eða láta hana standa.

Þar með er komin upp sú staða að þeir fimm alþingismenn sem voru kjörnir á kostnað fimm annarra eftir endurtalningu í kjördæminu verða í raun dómarar í eigin sök, sem er andstætt almennri lagareglu.

Karl sagðist telja að kosningakerfið hér á landi væri í heildina gott og tók hann þar undir orð Ólafs Harðarsonar stjórnmálafræðings frá því í Kastljósi gærkvöldins. Kosningalögin geri ráð fyrir að ágallar geti komið upp en þeir leiði ekki sjálfkrafa til ógildingu kosninga. Karl benti þó á að þeir ágallar sem hefðu verið á talningu og framkvæmd kosninganna í NV-kjördæmi væru áþekkir þeim sem Hæstiréttur hefði fundið að kosningum til stjórnlagaráðs árið 2011 og mat Hæstaréttar hefði verið að þær kosningar hefðu verið ólöglegar. Hæstiréttur myndi vissulega ekki kveða upp úrskurð í þessu máli heldur Alþingi, en Alþingi myndi úrskurða eftir sömu lögum, kosningalögunum.

Ekkert annað komi til greina en að kjósa aftur

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður og oddviti Pírata í NV-kjördæmi, var einnig í Kastljósi og segir hann að í sínum huga komi ekkert annað til greina en að kjósa aftur í kjördæminu. Mun hann kæra kosninguna til kjörbréfanefndar Alþingis þegar hún hefur verið skipuð, sem verður um leið og Alþingi kemur saman. Aðspurður hvort hann teldi einhvern möguleika á því að Alþingi ógilti þannig eigin kosningu sagði Magnús:

„Ég bind vonir við það að þingmenn skoði þetta mál af af fullri sanngirni og komist að réttri niðurstöðu. Ég tel að eina rétta niðurstaðan sé að ógilda þessar kosningar í NV-kjördæmi og boða til nýrra kosninga þar. Ég held að stærsta spurningin og aðalspurningin sé sú, hvernig eiga frambjóðendur í NV-kjördæmi, 160 talsins sem eru á lista,  og ekki síður kjósendur sem þarna tóku þátt, rúmlega 17 þúsund, að geta treyst því að fram hafi farið heiðarlegar og sanngjarnar kosningar, þegar að sá aðili sem stýrði kosningunum, formaður yfirkjörstjórnar, hefur gengið fram með þeim hætti að hann braut lög, hann hefur viðurkennt það, en hann hefur líka talað með þeim hætti að það hafi verið í lagi vegna þess að það hafi byggt á hefð og hann vísar sérstaklega í hefð, og hún geti þarna gengið framar almennum lögum, í þessu tilviki kosningalögum. Þetta er auðvitað fráleitt.“

Magnús vísaði þarna til þess að kjörgögn voru ekki innsigluð eins og lög kveða á um, og vörslu þeirra var ábótavant.

Magnús sagði ennfremur: „Ferillinn er ekki bara talningin, þetta eru líka kosningarnar sjálfar og það koma upp óvænt atvik, það koma upp allskonar álitaefni og tilvik, þar sem formaður yfirkjörstjórnar þarf væntanlega að taka afstöðu og ákveða hvað eigi að gera. Og þá er mín spurning: Byggði formaður yfirkjörstjórnar á lögum þegar hann tók allar sínar ákvarðanir í þessu ferli eða byggði hann á tilgreindum hefðum. Þegar af þessari ástæðu ríkir ekki traust hvað þessar kosningar varðar og það verður engin sátt um þetta mál nema það sé kosið að nýju.“

Magnús benti á að tvær talningar í kjördæminu hafi nú farið fram og þær geti ekki báðar verið réttar. „Hefðu vörslur kjörgagna verið tryggar og innsigli verið sett á kjörgögnin þá værum við í þeirri stöðu núna að geta sannreynt hvor talningin væri rétt, bara með því að endurtelja. En við höfum enga möguleika til að skera úr um hvor talningin var rétt vegna þess að vörslur kjörgagnanna voru ótryggar. Eina leiðin er að kjósa aftur, ég held að hver maður sjái það.“

Atkvæðum fjölgaði um tvö eftir endurtalningu og atkvæði flokka breyttust. Aðspurður hvort Magnús teldi þessa ágalla bera þess vitni að kosningasvindl hefði hátt sér stað taldi hann svo ekki vera. Hann sagðist aldrei hafa haldið því fram að hann teldi að kosningasvindl hefði átt sér stað, en: „Staðreyndin er hins vegar sú að þarna eru lög sem gilda og á að fara eftir og það var ekki gert. Það rýrir allt traust og trúverðugleika hvað þessar kosningar varðar. Höfum það líka í huga að niðurstaða kosninganna breyttist milli talninga, það eru fimm nýir þingmenn sem þarna koma inn og fimm aðrir sem fara út, innan flokka vissulega, en allt að einu aðrir þingmenn. Þeir eru núna í þeirri stöðu að taka afstöðu til minnar kæru varðandi lögmæti kosninganna, þingmenn sem náðu inn eftir þessa endurtalningu.“

Magnús sagði að fólk þyrfti að gera sér grein fyrir því hvað mikið væri hér í húfi, allt kerfið okkar byggði á alþingiskosningunum. Þar séu þingmenn valdir sem mynda löggjafarvaldið og löggjafarvaldið réði því hverjir færu með framkvæmdavaldið og framkvæmdavaldið skipaði síðan dómara. Allt kerfið væri því undir og því væri ekki í boði að sætta sig við einhverja vankanta og segjast bara ætla að gera betur næst.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar