Knattspyrnumenn í fremstu röð moka inn milljónum í kassann í hverjum mánuði og þegar skórnir fara upp í hilluna frægu ætti svo sem enginn þeirra að vera á flæðiskeri staddur. En á þessu – eins og svo mörgu öðru – eru undantekningar.
Svíinn Jesper Blomqvist lék með Manchester United við góðan orðstír á árunum 1998 til 2001. Vann hann meðal annars Meistaradeildina með liðinu árið 1999 og ensku úrvalsdeildina það ár. Þar áður hafði hann leikið með liðum á borð við AC Milan, Parma og eftir að hann yfirgaf United lék hann um stund með Everton.
Þó Blomqvist hafi haft bærilegar tekjur upp úr krafsinu er staðan þannig í dag að hann þarf að stunda vinnu til að hafa í sig og á. Og Blomqvist, sem er orðinn 44 ára, hefur tekið ákvörðun um starfsvettvang: Hann ætlar að verða pizzabakari.
Blomqvist sagði frá þessu í viðtali við sænska blaðið Expressen þar sem hann sagðist hafa farið illa út úr fjárfestingum eftir að knattspyrnuferlinum lauk. Hann hafi verið plataður, eins og hann orðar það, og fjárfest á óskynsamlegan hátt. „Það er ekkert neyðarástand en ég get ekki lengur legið í rúminu og gert ekkert,“ segir hann.
Blomqvist hefur keypt pizzastað í Lidingö og stendur nú yfir vinna við endurbætur á staðnum. Til stendur að opna hann innan mánaðar. „Síðan ég bjó á Ítalíu hef ég alltaf haft áhuga á matargerð og nú er ég loksins búinn að finna rétta vettvanginn,“ segir hann.
Sjálfur segist Blomqvist ekki beint vera framúrskarandi pizzabakari en hann muni finna rétta fólkið í verkefnið með sér. Á meðan lærir hann réttu handtökin í eldhúsinu. „Ég er að læra. Ég get ekki lofa því að ég verði í eldhúsinu þegar mikið er að gera en það mun gerast þegar ég næ valdi á bakstrinum.“