„Sjúkrahúsin eru full af COVID sjúklingum, vinir. FULL,“ skrifar hún. Hún er læknir í bænum Twin Falls í suðurhluta ríkisins, úti á landi. En bærinn og ríkið í heild eru nú miðpunktur alvarlegustu stöðunnar vegna COVID-19 í öllum Bandaríkjunum.
Skelfileg önnur bylgja faraldursins herjar nú á Idaho og fleiri hafa látist í henni en á nokkrum öðrum tímapunkti í faraldrinum og það sama á við um fjölda smitaðra, hann hefur aldrei verið meiri.
Washington Post skýrði nýlega frá því að fjöldi látinna á sjúkrahúsum í ríkinu sé orðinn svo mikill að líkhús og líkbrennslur í ríkinu séu yfirfull og ráði ekki við ástandið.
Dave Salove, sem rekur líkhús í Boise, neyddist til að leigja frystibíl því ekki var meira pláss í líkhúsinu hans en þar er hægt að geyma 16 lík. Á föstudaginn voru sjö lík í bílnum og sex til viðbótar á leiðinni. „Ég var varla búinn að koma honum fyrir þegar við neyddumst til að taka hann í notkun. Við sjáum mikla aukningu núna,“ sagði Salove í samtali við Washington Post.
Vikum saman hafa rúmlega 1.000 smit greinst daglega en tæplega 1,8 milljónir búa í ríkinu. Þegar verst hefur látið hafa rúmlega fimmtíu látist á einum degi. Í heildina hafa tæplega 3.000 látist í ríkinu.
Sjúkrahúsin ráða illa við ástandið og hefur þurft að koma COVID-19 sjúklingum fyrir nánast hvar sem er á þeim því þau eru yfirfull. Þetta þýðir að þegar Cathy Canty sinnir stofugangi verður hún að ganga fram hjá skurðdeildum, barnadeildum, kvennadeildum og endurhæfingardeildum þar sem COVID-19 sjúklingum hefur verið komið fyrir. „Það er ekki meira pláss á hefðbundnu deildunum því það eru svo margir COVID-19 sjúklingar. Það eru þrisvar sinnum fleiri COVID-19 sjúklingar á sjúkrahúsunum hér í Magic Valley en nokkru sinni áður í faraldrinum. ÞRISVAR SINNUM,“ skrifar hún.
Eins og staðan er núna hafa 46,6% íbúa í Idaho fengið einn skammt af bóluefni hið minnsta en aðeins 41,2% hafa lokið bólusetningu.
Önnur bylgja faraldursins herjar nú af miklum þunga en ekki meðal þeirra 46,6% sem hafa fengið bóluefni. „Fólk er veikara en áður, fólk deyr. Fólk sem ég þekki og ann. Fólk sem á fjölskyldur hér í Twin Falls í Idaho, ungir og gamlir, heilbrigðir og krónískir sjúklingar. En eitt eiga allir þessir COVID-19 sjúklingar sameiginlegt. Þeir eru ekki bólusettir,“ skrifar Canty.