fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024

Á spássíu heimspekisögunnar

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 25. mars 2018 13:00

Herbergi lærdómsmanns í Kaupmannahöfn á svipuðum tíma og Magnús Eiríksson stundaði guðfræðinám í borginni. Málverk frá 1829 eftir Wilhelm Bendz.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gegnum aldirnar er varla hægt að segja að nokkur Íslendingur hafi haft sérstök áhrif á, eða eigi hlutdeild í, sögu vestrænnar heimspeki. Heimspekihefðin hefur að langmestu leyti þróast og dafnað á meginlandinu úr seilingarfjarlægð frá íslenskum áhrifum, og tengsl Íslendinga við helstu hugsuði heimspekinnar verið lítil sem engin. Guðfræðingurinn Magnús Eiríksson er líklega einn af örfáum menntamönnum frá eyjunni sem getur talist hafa átt í fræðilegum skoðanaskiptum við einhvern af risum vestrænnar heimspeki, en hann var samtímamaður, samnemandi og gagnrýnandi danska guðfræðingsins og tilvistarspekingsins Sørens Kierkegaard.

Vegna óvenjulegra og frumlegra trúarskoðana sinna var Magnús jaðarsettur og hunsaður í lifanda lífi og lengi vel minnst sem nokkuð harmrænnar fígúru. Á undanförnum árum hefur áhugi á framsæknum kenningum Magnúsar og tengslum hans við Kierkegaard hins vegar aukist á ný. Nýlega kom út safn ritgerða um guðfræði Magnúsar á ensku og á föstudag verður haldið málþing í Háskóla Íslands um þennan gleymda samtíðarmann Sørens Kierkegaard.

Blaðamaður DV kynnti sér Magnús Eiríksson og ræddi í þeim tilgangi við Guðmund Björn Þorbjörnsson, doktorsnema í heimspeki og einn fyrirlesara á málþinginu.

 

Magnús Eiríksson

Fæddur: 1806 á Skinnalóni á Melrakkasléttu.
Látinn: 1881 í Kaupmannahöfn.
Menntun: Guðfræðingur frá Háskólanum í Kaupmannahöfn árið 1837.
Nokkur helstu verk: Om Baptister og Barnedaab (1844), Tro, Overtro og Vantro (1846), Er Troen et Paradox? (1850), Om Johannes-Evangeliet (1863), Jøder og Christne (1873).

Gegn meginstraumnum

Magnús Eiríksson fæddist árið 1806, bóndasonur frá Skinnalóni á Melrakkasléttu, elstur fimm systkina. Hann stundaði nám við Latínuskólann á Bessastöðum og starfaði um nokkurra ára skeið sem skrifari stiftamtmanns áður en hann hélt til Kaupmannahafnar árið 1831 til að nema guðfræði, með stuðningi fyrrverandi vinnuveitanda síns. Hann stóð sig vel í skóla og eftir að hann útskrifaðist árið 1837 varð hann vinsæll einkakennari, annálaður fyrir mikla þekkingu á bæði Nýja og Gamla testamentinu og færni í ritskýringum.

Magnús var í hringiðunni á því sem hefur verið kallað „danska gullöldin,“ en svo hefur fyrri hluti 19. aldarinnar oft verið nefndur vegna hinnar miklu grósku sem var í menningar- og menntasamfélagi Danmerkur á tímabilinu. Eins og annar nýútskrifaður guðfræðingur frá Háskólanum í Kaupmannahöfn, Søren Kierkegaard, var hann reyndar gagnrýninn á þá hugmyndastrauma sem voru ríkjandi í danskri menningarumræðu undir lok fjórða áratugarins, en þá voru áhrif þýska heimspekingsins G.W.F. Hegel orðin alltumlykjandi.

Mynd: Gunnhildur Lind
Guðmundur Björn Þorbjörnsson, doktorsnemi í heimspeki

„Guðfræðin í Kaupmannahöfn á þessum tíma var undir miklum áhrifum frá Hegel og var kölluð spekúlatíf guðfræði. Þetta var mjög kerfisbundin hugsun og fólst í því að reyna að setja allan veruleikann – og þar með talinn Guð – í ákveðið kenningakerfi,“ segir Guðmundur Björn um hugmyndalega landslagið í Kaupmannahöfn á þessum tíma.

„Ráðandi fígúrur í dönsku menntalífi aðhylltust þessa hugsun, í guðfræðinni voru það Hans Lassen Martensen, og Mynster biskup og í bókmenntaranninum voru menn eins Johan Ludvig Heiberg undir miklum áhrifum frá Hegel.“

Bæði Magnúsi og Kierkegaard fannst ómögulegt að troða Guði og trúnni í díalektískt kerfi Hegel, en þó af ólíkum ástæðum. Trúarheimspeki Magnúsar gekk út að trúna væri hægt að nálgast með skynsemi og hún þyrfti aldrei að stangast á við reynsluheim okkar, en í huga Kierkegaard var spurningin um Guð og sannleikann ekki einhver heilaleikfimi heldur fór hún að hans mati fram á sviði tilvistarinnar sjálfrar.

Yfirgefinn, fátækur, kærður

Magnús Eiríksson var frjálslyndur og aðhylltist frelsi í trúarlegri hugsun. Í deilum sem hófust á fimmta áratugnum um barnaskírn í Danmörku tók hann til að mynda afstöðu á móti harkalegum refsiaðgerðum gegn þeim sem ekki vildu láta skíra börn sín. Ekki nóg með að honum fannst ómögulegt að kirkjan neyddi fólk til að stunda trúna á tiltekinn hátt heldur komst hann að því að þessi tiltekni háttur átti við engin biblíuleg rök að styðjast – postularnir höfðu hvorki stundað barnaskírn eða boðað hana.

Í þessum deilum fór hann fljótt að beina ritum sínum að Hans Lassen Martensen, sem var þá orðinn vinsæll og áhrifamikill prófessor við guðfræðideildina og hafði tekið þátt í að réttlæta aðgerðir yfirvalda gegn baptistunum svokölluðu. Næstu árin gerði Magnús lítið annað en að gagnrýna guðfræði (og persónu) Martensen, með æ heiftúðlegri skrifum, en viðfangið hunsaði skrif hans nær algjörlega – Magnúsi til mikillar gremju.

Þessi skrif bökuðu Magnúsi miklar óvinsældir og urðu meðal annars til þess að nemendur hættu að sækja í kennslu hjá honum. Þar með missti hann stóran hluta tekna sinna og sökk smám saman í skuldafen okurlánara. Gagnrýnin fór einnig að beinast að biskupi og kóngi og var Magnús loks kærður fyrir orð sín. Málið var reyndar látið niður falla eftir að Kristján 8. konungur lést og sonur hans, hinn frjálslyndi Friðrik 7., tók við.

„Þeir eiga það sameiginlegt Magnús og Kierkegaard að þeir voru mjög jaðarsettir af dönsku menningarelítunni á þessum tíma – enda ráðast þeir báðir gegn ríkjandi öflum, bæði gegn hinni hegelísku nálgun á guðfræði og svo krítísera þeir líka kirkjuna sem stofnun. Þeim finnst báðum að hún hafi farið verulega af leið. Magnús gengur raunar svo langt að hann vill uppræta kirkjuna sem stofnun en vill að fagnaðarerindið lifi bara áfram í mjög einfaldri mynd,“ segir Guðmundur.

Þrátt fyrir að vera illa staddur fjárhagslega leyfði samviska og sannfæring Magnúsar honum ekki að taka að sér virðuleg og vel launuð prestsembætti sem honum buðust á Íslandi, enda fannst honum það vera í andstöðu við trúarskoðanir sínar.

Kierkegaard ósáttur við hólið

Søren Kierkegaard

Magnús og Kierkegaard vissu vel af hvor öðrum, en þrátt fyrir að hafa átt sameiginlega andstæðinga og báðir goldið fyrir gagnrýni sína, lítur ekki út fyrir að þeir hafi verið nánir vinir – eða að minnsta kosti tók Kierkegaard ekki vel í vinahót Magnúsar.

„Magnús innritaðist í guðfræðideildina einu ári á eftir Kierkegaard og þetta var ekki stór deild á þeim tíma. Ég held þó að það séu ekki til neinar heimildir um að þeir hafi hangið mikið saman. Við vitum þó að þegar halla fór undan fæti hjá Magnúsi í kringum 1840 og hann fór að leita til vina og vandamanna um fjárhagsaðstoð, þá leitaði hann meðal annars til Kierkegaard. Í bréfi til hans segir hann að nú sé kominn tími til að Kierkegaard sýni í verki hvernig kærleikurinn virki – sem manni finnst nú frekar passíf-agressíf bón um peninga. Kierkegaard neitar honum á frekar snubbóttan hátt, en hann var sjálfur svolítill pabbastrákur sem fékk arf og þurfti ekki að hafa miklar áhyggur af peningum, að minnsta kosti fyrst um sinn,“ segir Guðmundur.

Í fyrstu sá Magnús bandamann í Kierkegaard og vísaði meðal annars í verk hans Óvísindalegur eftirmáli (d. Afsluttende uvidenskabelig efterskrift) í gagnrýni sinni gegn Martensen, en Kierkegaard vildi hins vegar ekkert kannast við túlkun Magnúsar á verkinu. Hann var ósáttur við að vera dreginn inn það sem hann sá sem krossferð Magnúsar til að fá Martensen rekinn og undirbjó svar sem hann titlaði „Sjálfsvörn gegn óumbeðnu hóli.“ Textinn kom þó aldrei út og er hann aðeins að finna í dagbókum hans.

„Kierkegaard vildi alls ekki samsama sig Magnúsi. Í þessu bréfi sem birtist aldrei opinberlega tekur hann fram að Magnús hafi misskilið sig alveg stórkostlega. Þetta er þó ekki endilega alveg rétt hjá honum. Vissulega tók Magnús sér svolítið skáldaleyfi þegar hann las Kierkegaard, en viðbragð Kierkegaard byggir kannski líka á því að hann var sjálfur frekar hégómlegur og vildi ekki láta tengja sig við einhvern óvinsælan jaðar-Íslending,“ útskýrir Guðmundur.

Einn fyrsti gagnrýnandi Kierkegaard

Síðar átti Magnús eftir að snúa sér að því að gagnrýna trúarheimspeki Kierkegaard í bókinni Er trúin þverstæða? (d. Er troen paradox?) en þar gagnrýnir hann þann skilning sem er settur fram í bókinni Uggur og ótti á trúnni sem þverstæðu – þvert á móti leggur hann áherslu á að skynsemin eigi að ná utan um það sem kallast trú:

„Johannes de Silentio, sem er dulnefnið sem Kierkegaard gefur út bókina Uggur og ótti undir, segir að það að komast til trúarinnar sé að mæta þverstæðunni sem felst í friðþægingunni og krossfestingunni, þverstæðunni sem felst í því að Guð deyr. Í hans huga er eina leiðin til að komast yfir þessa þverstæðu einfaldlega að trúa. Magnús segir hins vegar að það sé ekkert absúrd við trúna, heldur þurfi maður bara að gera þetta einfalt, einbeita sér að réttu hlutunum. Hugmyndirnar um hvað felst í þessari einföldu trú er hann svo að þróa allan höfundarferil sinn,“ segir Guðmundur.

Einnig er áhugavert að Magnús gagnrýndi þær hugmyndir sem Kierkegaard setur fram um kærleikann í riti sínu Ástargjörningar (d. Kærlighedens gærninger) „Hann gagnrýnir harðorða sýn Kierkegaard á kærleikann, en það er eiginlega sú sýn að þú eigir að elska af því að Guð segir þér það gera það. Gagnrýni Magnúsar minnir um margt á gagnrýni Theodors Adorno og Knuds Løgstrup sem benda á það löngu seinna hversu ómanneskjuleg sýn á kærleikann þetta er. Þarna er hann því langt, langt á undan sinni samtíð.“

Framsækinn og róttækur

Viðbrögð þeirra sem Magnús gagnrýndi lýsa ekki mikilli virðingu fyrir hugsun hans, og má af þeim skilja að þeim finnist hann hálfgerður vitleysingur og klikkhaus, en Guðmundur Björn segir þetta þó alls ekki hafa verið raunina – þvert á móti hafi hann verið á undan sinni samtíð.

„Magnús Eiríksson var verulega framsækinn guðfræðingur. Hann vildi fyrst og fremst einblína á boðskapinn í trúnni og neitaði að taka gildar þær kennisetningar kirkjunnar sem stangast á við reynsluheim okkar í dag. Að þessu leyti er hann líkur 20. aldar guðfræðingum á borð við þýska existentíalistann Rudolf Bultmann, sem talaði um að við þyrftum að „af-mýtólógísera“ Nýja testamentið, taka það úr þeim kraftaverkaveruleika sem hafði verið daglegt brauð á þeim tíma sem það var skrifað – en á ekki endilega erindi við okkur í dag – og einblína á kjarnann. Magnús var að segja þetta hundrað árum áður.

En auðvitað má líka benda á að Magnús var á sama tíma í hálfgerðri mótsögn við sjálfan sig. Hann lagði svo mikla áherslu á þessa skynsemistrú, en hafði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu í gegnum einhverjar vitranir sem hann fékk í draumi,“ segir Guðmundur.

Á móti guðdómi Krists

„Magnús ræðst líka gegn þrenningarkenningunni. Hann neitar guðdómi Jesú, segir að hann sé ekki Guð, heldur bara spámaður og kennari. Faðirinn er bara Guð. Þetta var algjört guðfræðilegt sjálfsmorð á þessum tíma – það var ekki hægt að halda þessu fram í þessu landslagi þar sem áhrif dönsku þjóðkirkjunnar voru svo mikil. Þetta var svo framsækin hugmynd að enginn hlustaði á þetta,“ segir Guðmundur, en nokkrum áratugum síðar urðu svipaðar hugmyndir að grunnstefi únitarismans, sem átti eftir að verða áhrifamikil trúarhreyfing í Bandaríkjunum og víðar.

Til þess að færa rök fyrir þeirri sannfæringu sinni að Jesús hafi verið maður en ekki Guð taldi Magnús sig þurfa að afneita Jóhannesarguðspjallinu sem hann sagði falsaða síðari tíma viðbót, og þurfti svo smám saman að draga sannleiksgildi æ stærri hluta Nýja testamentisins í efa. En hann hélt þó alltaf í ákveðinn grunnboðskap kristninnar.

„Hann lagði áherslu á þetta sem hann kallar einfalda trú, trú á einn ósýnilegan Guð sem varð aldrei maður. Boðskapurinn er í raun bara kærleiksboðorðið: elskaðu náungann og elskaðu Guð, og það er bara það. Guð sem er miskunnsamur og fyrirgefur syndina. Og hann áleit að Íslendingar hafi að vissu leyti ennþá trúað á þennan einfalda hátt. Ég held að þetta sé ein ástæðan fyrir því að hann ákvað að þýða nokkur verka sinna – meðal annars um Jóhannesarguðspjallið – á íslensku og gefa út sjálfur. Hann var orðinn nokkuð svartsýnn á að geta talað um fyrir Dönum, en var vongóður um að Íslendingar myndu hlusta á sig og viðhalda þessari trú,“ segir Guðmundur.

Það var þó einnig bjartsýni að halda að Íslendingar myndu hampa róttækum kenningum Magnúsar, og voru viðbrögðin við ritum hans raunar miklu neikvæðari á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar. Hann naut nokkurra vinsælda í Svíþjóð, í Danmörku var hann þagaður í hel, en á Íslandi var honum svarað harkalega.

Enn eitt dæmið um frjálslynda og nútímalega hugsun Magnúsar er að í upphafi sjötta áratugar 19. aldar talaði hann opinberlega fyrir jafnrétti kynjanna í ritdeilu sem kennd er við bókina Bréf Clöru Raphael eftir Mathilde Fiebiger. Röksemd hans í þeim efnum þykir minna um margt á rök breska heimspekingsins Johns Stuart Mill sem skrifaði áhrifamikið rit sitt, Kúgun kvenna, nokkrum áratugum síðar. Þetta er eitt af þeim efnum sem verður fjallað um á málþinginu á föstudag.

Guðmundur játar því að á vissan hátt sé Magnús Eiríksson að fá uppreist æru um þessar mundir, með endurskoðun á verkum hans í riti og ræðu: „Með þessari bók og málþingum eins og þessu á föstudag er að minnsta kosti verið að gangast við því að hann hafi verið hörkufræðimaður og haft ýmislegt að leggja til málanna. Mér finnst reyndar ólíklegt að guðfræði hans komi til með að hafa nein sérstök áhrif úr þessu. Mikið af því sem hann sagði hefur síðar komið fram frá öðrum og frægari fræðimönnum. En það er ljóst að hann var var mjög frumlegur og framúrstefnulegur hugsuður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

Heimilislausi maðurinn átti sér leyndarmál í geymslunni

Heimilislausi maðurinn átti sér leyndarmál í geymslunni
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Van Dijk gat valið á milli Manchester City og Chelsea

Van Dijk gat valið á milli Manchester City og Chelsea
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

,,Stundum vaknaði ég og vildi gefast upp“

,,Stundum vaknaði ég og vildi gefast upp“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Horfðu á nýjan þátt af Íþróttavikunni – Landsleikirnir gerðir upp og Adam Páls í beinni frá Ítalíu

Horfðu á nýjan þátt af Íþróttavikunni – Landsleikirnir gerðir upp og Adam Páls í beinni frá Ítalíu
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Segir að verkefnið taki Amorim marga mánuði

Segir að verkefnið taki Amorim marga mánuði
Fókus
Fyrir 18 klukkutímum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Real Madrid telur sig í góðri stöðu þrátt fyrir áhuga United

Real Madrid telur sig í góðri stöðu þrátt fyrir áhuga United