Katrín Aðalsteinsdóttir veltir fyrir sér tilgangi píp-testa í grunnskólum landsins en af hennar reynslu hafa þau slæm áhrif á sjálfsmynd barna sem minna mega sín í hlaupa íþróttum.
Ég man þegar ég var í skóla, þá voru þetta leiðinlegustu tímarnir í leikfimi. Ég var í þannig íþróttum að ég var ekki vön því að hlaupa, ég æfði dans og hafði ekki mikið úthald í hlaup fram og til baka,
segir Katrín í færslu á Facebook.
Þar að auki veiktist ég sem unglingur af meltingarsjúkdómnum Chrons og dró það vel úr þreki mínu. Ég píndi mig áfram í hvert skipti til þess að vera ekki sú fyrsta til þess að hætta að hlaupa.
Katrín segir að hvern vetur hafi henni kviðið þess að mæta í þetta próf.
Ég man að þau sem gátu hlaupið mest voru krakkarnir sem voru á fullu í fótbolta og sumar af fimleikastelpunum. Á þessum tíma var sjálfsálit mitt ekki sterkt og skömmin við það að geta ekki hlaupið jafn mikið og „duglegu“ krakkarnir var svakaleg.
Í dag á Katrín fimm börn og eru tvö þeirra komin í grunnskóla.
Þau eru í fjórða bekk og í dag kom annað barnið fúlt heim eftir skóla því það hljóp bara 11 ferðir í píp-testinu en sá sem hljóp mest fór alveg 100 ferðir.
Katrín leggur til að grunnskólar hætti að notast við píp-testin sem þolpróf fyrir börnin.
Af minni reynslu hefur þetta próf slæm áhrif á sjálfsmynd barna sem minna mega sín í hlaupa íþróttum. Ég get ekki séð að það skipti skólakerfið nokkru máli hversu margar ferðir krakkar geta hlaupið og hversu hratt.