Danir eiga meira en nóg af bóluefnum til að fullnægja eigin þörf og því hafa þeir gert samning við Nýja-Sjáland um sölu á 500.000 skömmtum af bóluefni Pfizer/BioNTech þangað. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Það voru nýsjálensk yfirvöld sem leituðu til Dana og föluðust eftir kaupum á bóluefnum.
„Við höfum frá upphafi veðjað á að kaupa mikið af bóluefnum fyrir dönsku þjóðina og í dag eigum við svo mikið af mRNA-bóluefnum að við höfum ekki þörf fyrir þau öll og það þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að gefa fólki þriðja skammtinn,“ er haft eftir Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra, í fréttatilkynningunni.
Nýsjálendingar hafa einnig keypt bóluefni af Spánverjum.
Reiknað er með að bóluefnin verði send til Nýja-Sjálands í dag og á miðvikudaginn.