Sverrir Sverrisson er öryrki og hefur undanfarið staðið í ströngu við að komast hjá því að örorkubætur hans verði skertar. Sverrir skrapp til Ungverjalands fyrr á árinu til að fara til tannlæknis og ákvað að vera þar í nokkurn tíma í leiðinni.
Hann vissi af því að margir íslenskir öryrkjar byggju á meginlandi Evrópu í einhvern tíma í senn og ákvað því að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins (TR) og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) til að athuga hvort bætur hans myndu nokkuð skerðast við ferðina til Ungverjalands.
Sverrir fékk þau svör frá TR í febrúar á þessu ári að bætur hans muni ekki skerðast á meðan hann er með lögheimili á Íslandi.
Í apríl var þó annað hljóð í stofnuninni. „Við reglubundið eftirlit hjá Tryggingastofnun hefur vaknað grunur um að búseta þín sé mögulega erlendis,“ stóð í póstinum og var Sverrir hvattur til að færa lögheimili sitt til Ungverjalands, en við það myndu bætur hans skerðast verulega.
„Með búsetu þinni í Ungverjalandi uppfyllir þú ekki lengur skilyrði um skráningu lögheimilis hér á landi, en lögheimili telst að jafnaði sá staður þar sem einstaklingur geymir persónulega muni sína og dvelur frá degi til dags.“
Sverrir benti TR á að þetta passaði ekki við þau svör sem hann fékk frá þeim fyrr á árinu. Auk þess benti hann þeim á að nánast allar hans eigur eru á Íslandi en hann tók einungis handfarangurstösku með sér til Ungverjalands. Þá segist hann einnig vera með vottorð frá lækni þar sem fram kemur að það henti heilsu sinni betur að vera úti í lengri tíma.
„Á endanum gáfu þau eftir en ég var orðinn alveg fjúkandi reiður,“ segir Sverrir í samtali við DV um málið. „Þú ert með læknisvottorð, þú færð engar skerðingar,“ hafði TR sagt við Sverri en það stóð síðan ekki.
Sverrir tók eftir því að hann var að eyða gífurlegum fjárhæðum í banka- og færslugjöld í Ungverjalandi. Hann ákvað því að tala aftur við TR og bað um að fá bæturnar lagðar inn á ungverskan reikning í staðinn fyrir sinn íslenska, þannig gæti hann komist hjá því að borga þessi gjöld.
Við það tók við ferli þar sem tölvupóstar voru sendir fram og til baka, TR vildi skerða bæturnar en Sverrir stóð fastur á sínu. „Það var bara stanslaust rifrildi en svo samþykkja þeir að gera það,“ segir Sverrir.
Þegar næstu mánaðarmót báru að garði fékk Sverrir þó ekki peninginn lagðan inn á reikninginn. Hann hafði samband við TR sem sagði honum að bæturnar hefðu verið lagðar inn á Kviku banka og að þær myndu skila sér til hans viku síðar. Sverrir sagði að það myndi ekki ganga þar sem hann þyrfti að borga reikninga um hver mánaðarmót.
Eftir enn fleiri tölvupósta og símtöl náði Sverrir því í gegn að fá bæturnar daginn eftir hver mánaðarmót.
Málið hins vegar í allt aðra átt því Sverrir fékk sendan óvenjulegan tölvupóst frá starfsmanni TR. Í tölvupóstinum gerði starfsmaðurinn grín að stafsetningu Sverris og gaf í skyn að hann væri búinn að reykja of mikið af kannabisi. Tölvupósturinn átti að fara á annan starfsmann stofnunarinnar en barst óvart á Sverri.
Tölvupósturinn sem um ræðir:
„Ertu að djóka ?
Hahahahahahaha Eigum við að stinga uppá að hann fari í stafsetningakennslu í Íslensku..og segja Róbert ! Hann að búin að tjóðra aðeins og mikið kannabis held ég.
Sjáumst 😉“
„Ég varð alveg fjúkandi reiður,“ segir Sverrir í samtali við DV en hann sendi tölvupóstinn sem hann fékk aftur til baka á alla starfsmenn TR. Þá sendi hann póstinn einnig á Öryrkjabandalag Ísland (ÖBÍ).
Fljótlega fékk Sverrir afsökunarbeiðni senda frá Davíð Ólafi Ingimarssyni, framkvæmdarstjóra rekstrarsviðs TR.
Afsökunarbeiðnin:
„Ágæti Sverrir,
Okkur þykir mjög miður að starfsmaður stofnunarinnar hafi brugðist við með þessum hætti við erindi þínu þó ljóst þyki að tölvupósturinn hafi ekki átt að fara til þín. Orðræða sem þessi er ekki liðin í starfsemi stofnunarinnar, hvorki inn á við í samskiptum starfsmanna né út á við til viðskiptavina.
Ég endurtek að við hörmum þessa framkomu starfsmanns sem við teljum algjörlega óásættanlega.
Ef þú vilt ræða þetta eða önnur samskipti við Tryggingastofnun þá endilega hafðu samband við mig.
Kveðja,
Davíð“
ÖBÍ var allt annað en sátt með framkomu starfsmanns TR og ákvað formaður bandalagsins, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, að senda harðort bréf á forstjóra stofnunarinnar, Sigríði Lillý Baldursdóttur, þar sem fram kemur að hún líti málið mjög alvarlegum augum.
„Tilgangur skilaboðanna var að hæðast að viðskiptavininum. Skilaboðin fela í sér fordómafullt og hrokafullt viðhorf í garð fatlaðs fólks. Viðhorf sem mikilvægt er að útrýma úr samfélaginu og eiga alls ekki að vera til staðar innan TR. Raunar ætti það með réttu að vera eitt af markmiðum TR að útrýma fordómum gagnvart fötluðu fólki í samfélaginu,“ segir til að mynda í bréfinu.
Þuríður segir þá að það sé öllum ljóst að starfsmaður sendir ekki skilaboð sem þessi á vinnufélaga sinn nema hann viti að viðbrögðin verði jákvæð. „Hann gerir væntanlega ráð fyrir að skilaboðin veki kátínu hjá móttakandanum. Af þeim sökum er mér það til efs að þessi ólánsami einstaklingur sé einn um það viðhorf sem birtist í skeytinu, eða sá fyrsti af starfsmönnum yðar sem viðrar fordóma sína á þennan hátt. Því miður vekja þessi samskipti grun um fordómafullt viðhorf of margra starfsmanna í garð viðskiptavina sem treysta á þjónustu stofnunarinnar,“ segir hún.
„TR er þjónustustofnun sem heldur utan um marga af allra viðkvæmustu borgurum þessa lands. Enginn velur sér að verða örorkulífeyrisþegi og viðskiptavinir TR eru mörg þúsund einstaklingar sem eðli málsins samkvæmt eiga margir hverjir allt sitt undir stofnuninni. Fordómalaust viðhorf starfsfólks yðar í garð þessa mikilvæga verkefnis er því sérstaklega mikilvægt.“
Þuríður óskar í bréfinu eftir upplýsingum frá TR um nokkra hluti. Hún vill fá að vita hvernig það sé tryggt að mál sem þessi komi ekki upp innan stofnunarinnar og hún vill vita hvað sé gert þegar mál sem þessi koma upp. Þá spyr hún Sigríði hvað hún hyggst gera til að útrýma þessum fordómafullu viðhorfum í vinnustaðamenningu TR.
Að lokum spyr hún hvort stofnunina sé tilbúin til að nota tækifærið og taka upp samstarf með Öryrkjabandalaginu um að reyna að útrýma fordómum gagnvart fötluðu fólki í samfélaginu almennt.
„Ég er þess fullviss að þér sem og aðrir stjórnendur TR viljið umfram allt að viðskiptavinir stofnunarinnar njóti sem bestrar þjónustu og að á móti þeim og þeirra óskum sé tekið af virðingu og alúð eins og sæmir stofnun sem ber hag viðskiptavina sinna fyrir brjósti. Enda á starfsfólk stofnunarinnar starf sitt, viðskiptavinum hennar að þakka.“
Ég legg áherslu á að ÖBÍ gerir enga kröfu um viðurlög eða aðrar afleiðingar gagnvart þessum eina tiltekna starfsmanni sem sendi skeytið. Það væru raunar sérstök vonbrigði ef TR myndi freistast til að afgreiða málið sem einstakt atvik í stað þess að lagfæra almenn viðhorf innan stofnunarinnar.
ÖBÍ krefst þess að almennt viðhorf stofnunarinnar gagnvart viðskiptavinum hennar verði lagfært, bæði inn á við sem út á við.“
Sigríður svaraði bréfi Þuríðar um hæl þar sem hún sagðist taka undir hvert orð Sigríðar. „Þetta er ólíðandi framkoma sem hefur þegar haft afleiðingar fyrir viðkomandi starfsmann. Tilvikið hefur einnig leitt til umræðu meðal stjórnenda stofnunarinnar um hvernig þetta megi hafa átt sér stað og hvernig megi koma í veg fyrir að svona nokkuð geti átt sér stað í framtíðinni. Þetta er hegðun sem við tökum mjög alvarlega á og hefur og verður aldrei liðin,“ segir hún meðal annars í póstinum.
„Eins og þér er kunnugt þá legg ég ríka áherslu á að mæta viðskiptavinum okkar af kurteisi og virðingu í hvívetna og þjónusta þá eins vel og okkur er unnt. Það var því reiðarslag að sjá þessi skrif starfsmanns hjá okkur. Þó þau hafi verið ætluð öðrum starfsmanni en hafi farið til viðskiptavinarins fyrir mistök þá eru þau ekki skárri fyrir það – þetta er algerlega óásættanlegt og á engan hátt í takt við viðhorf okkar, vinnubrögð eða þjónustustefnu.“
Sigríður segir að allan sinn tíma í starfi hafi hún lagt áherslu á að tryggja fordómalaus og þjónustumiðuð viðhorf meðal starfsmanna. Það hafi ekki einvörðungu verið gert með stefnum, markmiðum og í framtíðarsýn stofnunarinnar, hún segist nánast ekki halda starfsmannafundi án þess að minna á það mikilvæga hlutverk sem þau gegna fyrir þá sem búa við viðkvæma stöðu.
„Við höfum einnig teiknað þessi viðhorf inn í samskiptasáttmála starfsmanna. Umrætt tilvik var því ekki einvörðungu brot á 21.gr.laga nr. 70/1996 heldur einnig á samskiptasáttmála TR.“
Þá segir Sigríður að búið sé að leggja sérstaka áherslu á að kynnast viðhorfi umsækjenda um störf hjá stofnuninni til skjólstæðinga hennar áður en að ráðningu kemur. Hún segir öflug fræðsla og kynningarstarfsemi sé í TR-skólanum til að minna á viðkvæmt og mikilvægt hlutverk okkar. „Þar höfum við meðal annars fengið ykkar fulltrúa á fundi til að ræða þessi málefni.“
„Ég mun taka saman bréf hið fyrsta og svara öllum spurningum sem fram koma í bréfi þínu en þakka þegar fyrir að fá frá ykkur boð um að taka upp samstarf með ÖBÍ um að útrýma fordómum gagnvart fötluðu fólki í samfélaginu almennt. Þar er verk að vinna sem við viljum leggja lið eins og okkur er kostur.“