Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Með ástarsvindli er átt við þegar svikahrappur, sem er yfirleitt staddur erlendis, kemst í samband við væntanlegt fórnarlamb sitt á netinu, oft í gegnum stefnumótasíður eða spjallsíður. Út frá þessu myndast tilfinningasamband á fölskum forsendum. Þegar svikahrappurinn telur sig vera búinn að byggja upp nægilega mikil tengsl og traust biður hann um lán eða styrk. Þetta getur síðan haldið áfram um langa hríð og upphæðin farið síhækkandi.
Fréttablaðið hefur eftir Daða Gunnarssyni, lögreglufulltrúa hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að málum af þessu tagi hafi fjölgað í faraldrinum. 14 af tilkynningunum 20 hafi borist eftir að faraldurinn skall á. „Það staðfestir aukningu frá því að Covid hófst. Þá er líka fólk sem hefur verið í sambandi við okkur eftir að Covid hófst sem lét ekki blekkjast en var komið áleiðis og búið að mynda nokkur tilfinningabönd við aðilana,“ er haft eftir honum.
Hann sagði einnig að þrátt fyrir að tilkynningum hafi fjölgað þá telji lögreglan að það segi ekki allt um umfangið því margir skammist sín einfaldlega of mikið til að tilkynna um brot af þessu tagi. „Skömmin er töluverð hjá fólki sem ræðir við okkur. Fólk er oft mjög sárt þar sem það var búið að mynda tilfinningatengsl við aðilann sem það var í sambandi við,“ sagði hann.
Það er misjafnt hvað lögreglan getur gert í málum af þessu tagi en peningarnir eru ekki alltaf tapaðir. „Í sumum málum höfum við náð peningum aftur ef fólk uppgötvar þetta fljótt. Vandamálið er að yfirleitt uppgötvast þetta mjög seint og fólk vill ekki viðurkenna að hafa orðið fyrir slíkum brotum. Þá eru endurheimtur oftast frekar erfiðar,“ sagði Daði.