Sonurinn sem var 17 ára þegar þetta gerðist var ekki einn að verki samkvæmt því sem kemur fram í ákæru vegna málsins. Hann og faðir hans, sextugur eiginmaður konunnar, eru báðir ákærðir. Í ákærunni kemur fram að þeir hafi lagt á ráðin um að myrða konuna vegna þess að hún var ekki sanntrúaður múslimi.
BT segir að í ákærunni komi fram að feðgarnir hafi undirbúið morðið í langan tíma og að í undirbúningi sínum hafi þeir einnig gert ráð fyrir að sonurinn myndi einn taka á sig sök fyrir morðið.
Ástæðan fyrir morðinu var meðal annars að konan var ekki sanntrúaður múslimi og neitaði að afsala sér sinn hlut í fasteign til eiginmanns síns.
Philip Møller, saksóknari, sagði að málið væri umfangsmikið og margt í því sem geri að verkum að hann krefjist þyngri refsingar en ella. Málsskjölin eru um 3.000 blaðsíður. Hann sagði að auk refsingar fyrir morðið sjálft eigi feðgarnir refsingu yfir höfði sér fyrir að hafa myrt konuna vegna trúar hennar en sérstakt ákvæði gildir um slík brot.
Feðgarnir eru frá Afganistan. Pilturinn kom til Danmerkur með foreldrum sínum. Þeir eiga báðir á hættu að verða vísað úr landi þegar þeir hafa lokið afplánun hugsanlegs dóms.