Svíarnir neita sök. Annar þeirra, 46 ára, viðurkennir að hafa umgengist lík á ósæmilegan hátt. Hinn maðurinn, 53 ára, neitar sök. Hann á sveitabýlið þar sem morðið var framið.
Lögreglunni var tilkynnt um hvarf Eddie þann 11. maí 2020. Hann bjó í hjólhýsi nærri sveitabýli Svíans. Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að blóðblettir voru framan við hjólhýsið og beindist grunur hennar fljótlega að eiganda sveitabýlisins. Hann á einnig fasteign í Frederikshavn. Þegar lögreglan framkvæmdi húsleit þar fann hún tvær olíutunnur sem stóðu á bretti og var búið að pakka þeim inn í plast. Í þeim var aska, múrsteinar, naglar og mannabein sem rannsókn leiddi í ljós að voru úr Eddie.
Heima hjá eiganda sveitabýlisins fann lögreglan ýmis skotvopn sem voru að sögn lögreglunnar notuð til að skjóta Eddie og hund hans en hann fannst grafinn í skurði nærri hjólhýsinu.
Saksóknari sagði fyrir dómi í byrjun vikunnar að ekki hafi reynst unnt að skera úr um hvort Eddie hafi verið skotinn til bana eða hvort hann hafi verið lifandi þegar hann var brenndur.
Reiknað er með að dómur í málinu verði kveðinn upp í byrjun október.