fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Jós svívirðingum yfir morðingja frænda síns í Bónus: Furðar sig á því að hann gangi laus – „Mér brá helvíti mikið, ég bara fraus“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 6. september 2021 20:00

Skjáskot af Google Maps og skjáskot úr myndbandinu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Patrik Snær Atlason var staddur í verslun Bónus á Granda í dag þegar hann hitti Gunnar Rúnar Sigurþórsson, manninn sem myrti frænda hans árið 2010. Þá varð Gunnar Hannesi Þór Helgasyni að bana með hrottalegum hætti árið en Hannes var móðurbróðir Patriks.

Patrik dró upp síma sinn og tók upp myndband af fundi þeirra sem hann birti á Instagram-síðu sinni. Óhætt er að fullyrða að myndbandið hafi farið sem eldur um sinu um netheima.

„Mér brá helvíti mikið, ég bara fraus. Ég er búinn að undirbúa mig fyrir þetta svolítið lengi, ég stoppa stundum eitthvað fólk úti á götu sem líkist honum og tékka hvort það sé hann,“ segir Patrik í samtali við blaðamann DV um málið.

„Ég gerði það sama núna, hann er aðeins búinn að grennast eða eitthvað, hann lítur aðeins öðruvísi út en þegar hann drap hann. Hann lítur aðeins öðruvísi út eftir þessi 11 ár, þannig ég þurfti aðeins að virða hann fyrir mér, svo fattaði ég að þetta væri hann og þá allt í einu fraus ég.“

„Myrtir þú ekki frænda minn?“

Patrik segist hafa komist í uppnám og ekki hafa vitað hvernig hann ætti að bregðast við því að sjá morðingja frænda síns. „Ég hugsaði í smá stund og segi svo fyrst við hann: „Þú ert ógeðslegur“ en ég tók það ekki upp á myndband. Svo hugsa ég aftur í smástund og hann fer inn í mjólkurkæli og heldur bara áfram að versla eins og ekkert sé. Þá tek ég upp símann og tek upp þetta myndband, bara til að gera eitthvað í rauninni. Ég vissi ekki hvað – ég bara fraus.“

„Myrtir þú ekki frænda minn?“ segir Patrik við Gunnar í upphafi myndbandsins. „Jú,“ svarar Gunnar og jánkar með höfðinu. „Og þú ert bara laus?“ spyr Patrik þá. „Ég er laus,“ segir Gunnar við því. „Djöfull ertu ógeðslegur,“ segir Patrik svo að lokum. Gunnar snýr sér þá við, segir „takk fyrir“ og gengur svo í burtu.

„Hvernig má það vera að þessi maður, sem var sakfelldur fyrir eitt grimmdarlegasta sakamál okkar tíma, sé látinn laus þegar hann á 6 ár eftir af afplánun refsingarinnar sem hann hlaut?“ spyr Patrik í Instagram-færslunni. „Það væri áhugavert að heyra rök Fangelsismálastofnunar fyrir þessu. Enginn fjölskyldumeðlimur Hannesar hefur fengið svo mikið sem vott af afsökunarbeiðni og ég fæ ekki séð að hann iðrist gjörða sinna. Hvað finnst þér?“

Feginn að enginn annar í fjölskyldunni hefur rekist á hann

Patrik segist ekki sjá eftir því að hafa birta myndbandið. „Ég vildi bara svona einhvern veginn að hann myndi fá eitthvað að finna fyrir þessu, þessi maður er morðingi,“ útskýrir hann.

„Ef ég væri bara einhver úti í bæ að rekast á morðingja úti í búð, það er ekki þægilegt fyrir neinn. Fyrir utan það þá er hann ekki búinn að afplána allan dóminn sinn. Það eitt sýnir bara hvað kerfið hérna er gallað.“

Aðspurður segir Patrik að miðað við viðbrögð Gunnars þá sjái hann ekki að hann iðrist þess sem hann gerði. „Nei en dæmi bara hver fyrir sig. Ég held að það sjái það bara flestir, miðað við þessi viðbrögð, að hann iðrast ekki nokkuð. Maður hefur heyrt það líka bara úti í bæ, að hann sé ekkert hættur og að hann hafi talað þannig inni í fangelsum,“ segir hann.

Þá er Patrik feginn að hann hafi rekist á Gunnar en ekki einhver annar í fjölskyldunni. „Ég er bara feginn að það hefur enginn í fjölskyldunni nema ég rekist á hann. Maður var alltaf búinn að vera að bíða eftir þessu, ég er bara feginn að þetta var ég en ekki einhver annar. En það á væntanlega eftir að gerast einhvern tímann.“

Segir galið að Gunnar gangi laus

Að lokum segist Patrik vilja fá svör við því hvers vegna Gunnar er laus. Gunnar var árið 2011 dæmdur í 16 ára fangelsi í Hæstarétti fyrir morðið sem hann framdi. Það vakti mikla athygli fyrir tveimur árum síðan þegar DV greindi frá því að hann væri laus úr fangelsi.

„Ég væri til í að fá einhver svör frá Fangelsismálastofnun. Hver eru rökin fyrir því að hann er laus?“ segir Patrik. „Ég bara næ því ekki. Ég skil ekki á hvaða landi þessi maður væri laus, öðru landi en Íslandi. Að hann eigi að fá að vera laus fyrr fyrir góða hegðun, það er bara galið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Ekki gerst í heil 18 ár
Fréttir
Í gær

Samtök með skuggalega fortíð auglýsa kynlífs shamanisma námskeið á Íslandi – Sökuð um misnotkun og dýrafórnir

Samtök með skuggalega fortíð auglýsa kynlífs shamanisma námskeið á Íslandi – Sökuð um misnotkun og dýrafórnir
Fréttir
Í gær

Könnun – Hvaða flokk ætlar þú að kjósa?

Könnun – Hvaða flokk ætlar þú að kjósa?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“