fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Stal úr búðum með mömmu sinni: Gyða missti son sinn frá sér vegna neyslu – „Þegar þú ert búin að missa barn þá er allt farið“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 19. mars 2018 12:50

Gyða Dröfn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef maður getur verið edrú í fangelsi þá getur maður verið edrú fyrir utan,“ segir Gyða Dröfn Grétarsdóttir, þrítug kona sem hlotið hefur marga fangelsisdóma. Gyða sagði sögu sína í þættinum Paradísarheimt með Jóni Ársæli Þórðarsyni sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi.

Gyða Dröfn sat í fangelsinu á Sogni þegar viðtalið var tekið. Í þættinum sagði hún frá erfiðum uppvaxtarárum sínum og fíkn; amma hennar og mamma voru fíklar eins og hún en þegar Paradísarheimt hitti hana var hún búin að taka sig á og gekk vel.

Borðaði úldinn mat

Gyða Dröfn var dæmd í fangelsi fyrir að stela vörum úr búðum sem hún seldi svo til að eiga fyrir dópi. Stal hún úr búðum með mömmu sinni að því er fram kom í þættinum. „Maður gerir hvað sem er til að komast í vímu,“ sagði hún.

Sem fyrr segir ólst Gyða upp við erfiðar aðstæður. Hún rifjar upp að þegar hún var lítil hafi hún verið send í pössun til ömmu sinnar og það hafi ekki beint verið gleðileg upplifun. „Þegar hún passaði okkur þá átti hún það til að læsa okkur niðri í þvottahúsi og láta okkur éta úldinn mat. Og hún gerði það líka við mömmu og systur hennar. Ég veit bara að þær fengu hræðilegt uppeldi frá henni. Hún átti við geðrænan vanda að stríða og var bara í mikilli neyslu,“ sagði Gyða sem var ung þegar móðir hennar og amma héldu partý á heimilinu.

„Þá var ég bara lítil og systir mín ekki fædd. Þær voru að djamma saman með einhverja ruglaða karlmenn á heimilinu og mamma ekkert að sinna mér,“ sagði Gyða.

Neyslufélagi mömmu sinnar

Í viðtalinu kom fram að Gyða væri ekki í reglulegu sambandi við móður sína í dag.

„Af því að ég er að reyna að vera edrú núna þá er ég búin að loka alveg á hana. Hún veit ekki númerið mitt og ekki neitt og mun væntanlega ekki fá að vita það. Eins og ég var búin að segja þá vorum við bara neyslufélagar og þegar mig vantar efni fer ég til hennar og eins með hana. Ég redda henni. Þetta er ekki gott fyrir edrúmennskuna mína þannig að ég verð bara að velja á milli. Við erum hvort sem er engar vinkonur, þannig séð. Það er ekki eins og hún sé að sækja eitthvað í mig nema biðja um eitthvað.“

Þær mæðgur voru neyslufélagar sem fyrr segir og til að fjármagna neysluna stálu þær vörum úr búðum sem þær reyndu svo að koma í verð. Gyða sagði að um sjálfsbjargarviðleitni hefði verið að ræða og þegar fólk er í neyslu sé það tilbúið að gera ýmislegt til að komast í vímu.

Strauk úr fóstri fimmtán ára

Aðspurð hvernig æska hennar hefði verið og hvort hún hefði átt eðlileg ár þegar hún var að alast upp, sagði Gyða:

„Ég var tekin úr ömurlegum aðstæðum þegar ég var níu ára og sett í fóstur en það gerði mér kannski ekki gott. Þau uppfylltu ekki mín skilyrði sem ég þurfti á að halda; ég þurfti á ást og stuðningi að halda en þau voru köld og ég var mikið notuð sem vinnustelpa,“ sagði Gyða sem dvaldi hjá fósturfjölskyldu frá níu ára aldri þar til hún varð fimmtán ára.

Missti strákinn frá sér

„Ég strýk þegar ég er 15 ára og fæ bara nóg af þessu. Þá fer ég á eitthvað upptökuheimili í Breiðholti og niðri í bæ og svo fer ég á flakk með mömmu. Ég var mikið á stofnunum,“ sagði Gyða sem á lítinn dreng sem hún kveðst stolt af. „Þegar ég lít til baka er ég ánægð með strákinn minn sem ég á. Ég er rosa stolt af honum,“ sagði Gyða sem þó fær hann ekki til sín aftur eftir afskipti barnaverndar.

Jón Ársæll: „Hvað gerðist?“

Gyða svaraði því til að hún hafi upplifað það þannig að hún sætti einelti af hálfu barnaverndarnefndar. „Ég var undir daglegu eftirliti í níu mánuði og látin skila þvagprufu. Það var allt allt í lagi – ég var með strákinn minn ein,“ sagði Gyða sem bætti við að hún hefði gert þau mistök að segja starfsfólki barnaverndarnefndar að hún hefði tekið inn rítalín. Það myndi þó ekki finnast í þvagprufunni.

„Hálftíma síðar var mér sagt að koma með drenginn út, annars kæmi lögreglan. Þar með var hann bara tekinn frá mér. É reyndi að gera allt sem þau vildu; ég fór í meðferð, eftirmeðferð og fór og bjó á vistheimilum barna. Þetta bara gekk einhvern veginn ekki. Þegar þú ert búin að missa barn þá er allt farið, þá eru allar hömlur farnar. En svona er þetta bara. Maður getur bara horft til framtíðar og reynt að bæta sig núna og verið til staðar fyrir hann þegar hann vill,“ sagði Gyða sem kvaðst líta framtíðina nokkuð björtum augum.

Þegar Paradísarheimt talaði við hana kvaðst Gyða vera trúlofuð manni sem biði hennar. „Við erum að fara eiga gott líf fram undan svo lengi sem við erum bæði edrú. Ég held mér hreinni á Sogni. Ef maður getur verið edrú í fangelsi þá getur maður verið edrú fyrir utan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Í gær

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni