Nýlega stóðu tveir 14 ára piltar í útjaðri íbúðahverfis, á stað þar sem lögreglan og allir vita að fíkniefni eru seld allan sólarhringinn, þegar mótorhjóli var ekið fram hjá þeim. Á því voru tveir menn, farþeginn var vopnaður vélbyssu og skaut hann ískaldur á piltana tvo. Annar þeirra lést en hinn lifði árásina af. Sá látni er yngsta fórnarlamb í þeim hörðu átökum glæpagengja sem standa yfir í borginni.
Að minnsta kosti 15 hafa látist í átökum glæpagengja í þessari næststærstu borg Frakklands það sem af er ári.
Nokkrum dögum eftir að 14 ára piltarnir voru skotnir var þeirra hefnt þegar þrír menn á þrítugsaldri voru myrtir í tveimur árásum á sömu klukkustundinni. Tveir voru skotnir ekki langt frá staðnum þar sem þeir 14 ára voru skotnir en hinum þriðja var rænt í rólegu hverfi í borginni. Lík hans fannst síðar í bíl í öðru hverfi í borginni. Hann hafði verið brenndur til bana. „Eigum við að sætta okkur við að telja fjölda skotinna á hverjum morgni?“ var spurt í leiðara dagblaðsins La Provence þann 23. ágúst.
Þeim sem vinna við að reyna að gera út af við fíkniefnasölu í borginni, til dæmis lögreglumenn og starfsfólk félagsmálayfirvalda, segja að meðlimir glæpagengjanna verði sífellt yngri og sumir þeirra séu í raun bara börn sem dragast inn í þennan harða heim og láta lífið í versta falli.
Sérfræðingar segja að mikið af unga fólkinu sé lokkað til liðs við glæpagengin í gegnum samfélagsmiðla. Sumir koma annars staðar að úr Frakklandi til að ganga til liðs við gengin.
Franskir fjölmiðlar segja að sum íbúðahverfin í Marseille séu eiginlega orðin gíslar í átökum glæpagengja um yfirráð yfir fíkniefnamarkaðnum. Í mars lét lögreglan til skara skríða í einu íbúðahverfi og var uppskeran ótrúleg. 51 kíló af kannabisefnum, 1,2 kíló af kókaíni og 308.000 evrur.