Það verður seint sagt að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé átakafælinn. Um áratugaskeið hefur hann varið Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans með kjafti og klóm. Engin breyting varð á því með tilkomu samfélagsmiðla og má nánast segja að prófessorinn njóti þess að hjóla í andstæðinga sína á þeim vettvangi.
Hannes sýnir þó reglulega á sér mýkri hlið á miðlinum og sú var raunin fyrr í dag þegar hann dásamaði minningargreinarnar sem birtast í miðlinum sem hann dýrkar, Morgunblaðinu.
„Minningargreinarnar í Morgunblaðinu og tilkynningarnar um fæðingu og skírn á Snjáldru (Facebook) eru miklu betri aldarspegill en allt rausið í hálfbiluðu fólki, sem situr hér vansælt, stundum drukkið, og hamrar á lyklaborðið,“ skrifar hann.
Að mati Hannesar sýna þessar greinar hversu heppnir landsmenn eru.
„Þessar greinar og tilkynningar bregða upp hugljúfri mynd af venjulegu fólki í lífi þess og önn, hetjum hversdagsins, til dæmis ömmum, sem alltaf bökuðu pönnukökur, þegar barnabörnin komu í heimsókn, og himinlifandi foreldrum, sem ljóma við að sjá sín litlu kríli koma í heiminn, hvert og eitt kraftaverk sjálfrar náttúrunnar. Við búum sem betur fer í einhverju friðsælasta og auðsælasta landi heims, og vonandi breytist það ekki.“