Að sögn vantar algjörlega niðurstöðu í skýrsluna, meðal annars vegna skorts á upplýsingum frá Kína en Kínverjar hafa ekki verið mjög samvinnuþýðir við rannsókn á upptökum veirunnar.
Samkvæmt umfjöllun The Washington Post þá segja heimildarmenn blaðsins að hlutar af skýrslunni verði væntanlega opinberaðir innan skamms en í henni sé ekkert afgerandi nýtt um uppruna veirunnar, hvort hún hafi smitast frá dýrum eða rannsóknarstofu.
Heitar umræður eru víða um uppruna veirunnar og Kínverjar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að vera ekki mjög samstarfsfúsir í tengslum við rannsókn á uppruna hennar. Þeir hafa ekki viljað starfa með Bandaríkjunum við rannsókn á uppruna veirunnar og mjög takmarkað með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO.
Þegar Biden gaf fyrirmæli um rannsóknina sagði hann að hjá bandarískum leyniþjónustustofnunum væru tvær kenningar taldar líklegar varðandi uppruna veirunnar. Önnur væri að hún hefði borist úr dýrum en hin að hún hefði borist frá rannsóknarstofu.
The Washington Post hefur eftir embættismanni að á meðan Kínverjar heimili ekki aðgang að ákveðnum gögnum þá muni aldrei fást vitneskja um uppruna veirunnar.
Vísindamenn hafa ekki fundið veiruna í leðurblökum eða öðrum dýrum sem passa við erfðauppbyggingu hennar. Vegna andstöðu Kínverja við að opinbera öll gögn um veiruna hafa sjónir sífellt fleiri sérfræðinga beinst að kenningunni um að veiran hafi fyrir slysni sloppið út frá rannsóknarstofu í Wuhan.