Ferðamenn hafa streymt til borgarinnar í sumar eftir magra mánuði vegna heimsfaraldursins. Ákveðnar sóttvarnaaðgerðir eru í gildi í borginni en um leið er mikil ásókn í að komast með ferjum til og frá borginni og til að skoða ýmsa merka staði í henni. Sumir ferðamenn hafa átt erfitt með að sætta sig við að þurfa að bíða og hafa látið skapvonsku sína bitna á áhöfnum ferjanna sem flytja farþega á milli Feneyja og fastalandsins og annarra eyja.
„Það hefur verið ráðist á suma starfsmenn og hrækt á þá, ljót orð látin falla og í sumum tilfellum hafa þeir verið beittir ofbeldi,“ hefur CNN eftir Danilo Scattolin, hjá stéttarfélagi ferjuáhafna í Veneto.
Af þessum sökum hafa yfirvöld sett verði, sem margir hverjir eru vopnaðir skotvopnum, við þá ferjustaði sem mesta umferðin er um. Vegna sóttvarnaaðgera er hámark á hversu margir farþegar mega ferðast í einu með opinberum samgöngutækjum. Í Veneto, þar sem Feneyjar eru, má að hámarki nota 80% af flutningsgetu opinberra samgöngutækja þessa dagana. Scattolin sagði að árásirnar á áhafnirnar eigi sér stað þegar þær neita fólki um aðgang að ferjunum vegna þessara takmarkana.
„Hugsunin um að árið 2021 þurfum við vopnaða verði í Feneyjum er ekki hugguleg,“ sagði hann við CNN og bætti við að margir af ferðamönnunum virði ekki reglur um félagsforðun né um notkun andlitsgríma.