Holly Madison lítur um öxl og gerir upp tíma sinn í Playboy-setrinu í nýrri heimildaþáttaröð, Secrets of Playboy. Fyrsta stiklan kom út í gær og munu þættirnir kafa ofan í veröld Hugh Hefner, stofnanda Playboy.
Þættirnir koma út í byrjun árs 2022 og verður þar meðal annars að finna viðtöl við einstaklinga sem þekktu Hugh Hefner persónulega, eins og Holly Madison sem bjó í Playboy-setrinu á árunum 2001 til 2008. Hún hefur áður verið opinská um neikvæðar minningar sem hún á frá þessum tíma.
„Ég áttaði mig ekki á því að það væri hættuleg ákvörðun að koma inn í þennan heim,“ segir hún í stiklunni.
Jennifer Saginor, sem bjó einnig í Playboy-setrinu um tíma, kemur einnig fram í þáttunum. „Hann vildi ekki að fólk vissi hvað væri raunverulega að gerast. Fólkið sem virkilega var þarna, það veit sannleikann,“ segir hún.
Horfðu á stikluna hér að neðan.