fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Vaxandi gagnrýni á sóttvarnalækni – „Þá er ekki annað að sjá en það sé skylda okkar hinna að sýna borgaralega óhlýðni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 19. ágúst 2021 11:30

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Mynd: Torg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna hefur mælst misjafnlega fyrir. Vísir.is fór yfir helstu atriði þess í gær. Í minnisblaðinu kemur fram að Þórólfur telur ólíklegt að hægt verði að aflétta takmörkunum innanlands á meðan faraldurinn geisar í heiminum, þó að náð verði böndum á faraldurinn hér á landi muni veiran berast áfram til landsins og geta valdið útbreiddum sýkingum.

Þórólfur leggur til ýmsar aðgerðir sem verði í gildi næstu mánuði hið minnsta. Hann leggur til að 200 manna fjöldatakmörk verði áfram í gildi, sem og eins metra fjarlægðarregla. Grímuskylda verði í gildi þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.

Lagt er til að skemmtistaðir verði áfram lokaðir eftir kl. 11 á kvöldin og Þórólfur mælir mjög gegn því að sóttkví bólusettra verði aflétt.

Þórólfur leggur ekki til neinar takmarkanir á skólastarfi næstu mánuði en vill að sérstaklega verði hugað að loftræstingu í skólum og á hjúkrunarheimilum.

Þórólfur segir takmarkanir á landamærum vera mikilvægasta þáttinn í að hafa hemil á faraldrinum. Hann leggur til að allir farþegar verði áfram krafðir um neikvætt Covid-próf bæði áður en þeir fara um borð í flugvél og við komuna til landsins. Sömuleiðis verði allir farþegar, einnig börn, skimaðir við komuna til landsins. Tvöföld skimun og sóttkví gildi áfram fyrir þá sem geti ekki framvísað gildum vottorðum.

Ógeðfelld framtíðarsýn

Ekki leikur nokkur vafi á því að sóttvarnatakmarkanir njóta mikils stuðnings meðal landsmanna en í umræðunni ber sífellt meira á óþoli gagnvart stefnunni og ljóst er að skoðanir eru skiptari en áður í þessari bylgju faraldsins sem fór af stað eftir víðtækar bólusetningar. Sú staðreynd að veiran veldur miklu minni veikindum en áður hefur hér mikil áhrif. Meðal þeirra sem tjá sig um framtíðarsýn Þórólfs er Ísak Rúnarsson hagfræðingur en hann segir á Facebook-síðu sinni:

„Hér er komin fram framtíðarsýn sem er ekki hægt að lýsa öðruvísi en sem ógeðfelldri.

Lítilsvirðingin, sem þessi embættismaður hefur sýnt borgaralegum réttindum hefur verið réttlætt á grundvelli þess að um neyðarástand sé að ræða.

Nú eru allir fullorðnir, sem það kjósa, bólusettir, lítil neyð ríkir almennt í samfélaginu og það heyrir til algerra undantekninga að fólk veikist alvarlega eftir smit.

Engu að síður vill þessi maður og hans samstarfsfólk hafa af okkur mikilvæg réttindi á grundvelli mjög þröngra hagsmuna að því er virðist um ókomna tíð. Við getum ekki látið það yfir okkur ganga, nú verða stjórnvöld að taka á sig rögg og hafa heildarmyndina að leiðarljósi.

Ef þau gera það ekki, þá er ekki annað sjá en það sé skylda okkar hinna að sýna borgaralega óhlýðni.“

Amast við grímuskyldu

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, segir í leiðara blaðsins í dag:

„Nú þegar Íslendingar eiga nánast heimsmet í bólusetningum við Covid þá ætti frelsi landsmanna að vera í samræmi við það. Svo er þó alls ekki. Meðan grímuskylda er afnumin hjá öðrum Norðurlandaþjóðum er henni viðhaldið hér á landi. Á fótboltavöllum koma þar þúsundir saman án grímu meðan hér á landi eru fjöldatakmarkanir og grímuskylda undir berum himni. Hér á landi er ætlast til að fólk sitji með grímur í leikhúsi og á tónleikum án hlés. Hver er eiginlega skemmtunin í því að sitja í sal með fólki þar sem allir eru með grímu og líta út eins og zombíur? Samt eru einhverjir sem láta bjóða sér þetta. Aðrir kjósa fremur að sitja heima og dunda við að skipuleggja menningarferðir eða ferð á knattspyrnuleik til erlendra borga þar sem frelsið býr.“

Kolbrún bendir á að þegar búið var að bólusetja stóran hluta dönsku þjóðarinnar hafi ferðamálaráðherra landsins sagt að nú væri verið að snúa aftur til hins hefðbundna lífs. Hér á landi fari hins vegar allt í baklás vegna smita sem ekki hafi haft í för með sér mikinn fjölda alvarlegra veikinda.

Þá segir segir Kolbrún:

„Ótal sinnum hefur verið tuggið ofan í þjóðina að hún verði að lifa með Covid. En um leið og smit greinast þá eru viðvaranir gefnar út, fjöldinn allur af einkennalausu fólki dæmt í sóttkví dögum saman og fjöldatakmörkunum og grímuskyldu er viðhaldið.

Það er nokkuð langt síðan sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórn hafa sent þau skilaboð til þjóðarinnar að stefnt sé að eðlilegu lífi í landinu. Það er nánast eins og yfirvöld séu farin að líta á óeðlilegt ástand sem eðlilegt og ætlist beinlínis til að aðrir séu sömu skoðunar.

Einmitt þar býr hættan.“

Vísindaleg umræða eigi undir högg að sækja

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, hefur áhyggjur af borgaralegum réttindum og grunnstoðum hins vestræna lýðræðisríkis til frambúðar, vegna þeirra aðgerða gegn faraldrinum sem eru að festa sig í sessi. Hann ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem segir:

„Get­ur verið að hér sé að eiga sér stað ein­hvers kon­ar siðferðileg, siðfræðileg, menn­ing­ar­leg og póli­tísk grund­vall­ar­breyt­ing í átt frá vest­ræn­um gild­um um sjálfs­for­ræði, sjálfs­ábyrgð, frjáls­lyndi og lýðræði í átt til for­sjár­hyggju, van­trausts, stjórn­lynd­is og fá­menn­is­stjórn­ar? Er hugs­an­legt að við séum nú að verða vitni að laga­legri og lög­fræðilegri umpól­un þar sem grunn­ein­ing laga og sam­fé­lags er ekki leng­ur ein­stak­ling­ur­inn held­ur sam­fé­lagið sem heild ? Frammi fyr­ir slík­um mögu­leika er rétt að við öll, þó ekki síst emb­ætt­is­menn og æðstu ráðamenn þjóðar­inn­ar, ger­um okk­ur ljóst hví­líka ógn og vald­beit­ingu slík umbreyt­ing myndi kalla yfir borg­ar­ana. Í sögu­legu ljósi má segja að sú leið sé skýr­lega vörðuð, allt frá kröf­um um fylgispekt við nýja siði (í nafni heild­ar­inn­ar eða sam­fé­lags­ins), til þögg­un­ar, eft­ir­lits, rit­skoðunar, frels­is­svipt­ing­ar, lík­ams­meiðinga, kúg­un­ar, harðstjórn­ar og alræðis.“

Arnar saknar virkari umræðu vísindamanna og óttast sérfræðingaveldi. Finna verði lausnir á grundvelli meðalhófs en ekki láta ráðandi sérfræðingum öll völd í té:

„Af hverju taka lækn­ar, lyfja­fræðing­ar og aðrir fræðimenn ekki virk­ari þátt í umræðu um þessi mál? Vís­bend­ing­ar eru um að vís­inda­leg umræða eigi nú und­ir högg að sækja. Fram hef­ur komið að ýms­ir kenni­menn vís­ind­anna (þ.m.t. rit­stjór­ar alþjóðlegra fag­tíma­rita) gangi í verki gegn hinni vís­inda­legu aðferð, m.a. með því að banna efa­semd­ir um viðtekn­ar kenn­ing­ar, birta ekki niður­stöður manna sem eru með aðrar til­gát­ur og með því að hindra að aðrir vís­inda­menn (og al­menn­ing­ur) fái sam­an­b­urðar­upp­lýs­ing­ar. Hvað stýr­ir þess­ari þróun? Er það ótti? Göf­ug­ur til­gang­ur? Áróður fjöl­miðla eða vill­andi upp­lýs­ing­ar? Án þess að gera lítið úr hætt­unni af C19 þurf­um við samt að beita rök­hugs­un og yf­ir­veguðu hags­muna­mati í leit að yf­ir­sýn og réttri leið. Treyst­um við okk­ar eig­in dómgreind eða vilj­um við af­henda sér­fræðing­um öll völd? Ég hef varað við síðari val­kost­in­um því stjórn lands­ins má ekki ráðast af þröngu sjón­ar­horni sér­val­ins hóps. Í anda stjórn­ar­skrár­inn­ar verðum við, hvort sem okk­ur lík­ar bet­ur eða verr, að vinna sam­an og finna lausn­ir á grund­velli meðal­hófs. Í því felst m.a. að eng­inn einn hóp­ur má fara með of mik­il völd og að öllu valdi verði að setja mörk. Það á við um kenni­vald vís­inda­manna ekki síður en annað vald. Í því sam­hengi er rétt að minna á að hin vís­inda­lega aðferð bygg­ist nú sem fyrr á heil­brigðum efa og gagn­rýnni hugs­un.“

Arnar segir að Covid-19 sé komið til að vera og við þurfum að finna leiðir til að lifa með veirunni. Hann spyr hvort við viljum ofurselja okkur valdi að ofan til frambúðar… „eða vilj­um við fá að taka sjálf­stæðar ákv­arðanir, taka ábyrgð á eig­in heilsu og annarra … og njóta frels­is í sam­ræmi við það?“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum