Flestir höfðu búist við að smitum myndi fjölga og svartsýnustu spár hljóðuðu upp á 200.000 smit á dag innan ekki svo langs tíma. Sajid Javid, heilbrigðisráðherra, studdi afléttingu sóttvarnaaðgerðanna en sagði að smitin gætu orðið 100.000 á dag í kjölfarið og Neil Ferguson, sem er þekktur farsóttafræðingur sem starfar hjá Imperial College í Lundúnum, varaði við þessu og sagði að smit gætu orðið allt að 200.000 á dag.
„Það er afgerandi að við sýnum áfram mikla varkárni,“ sagði Johnson þegar sóttvarnaaðgerðunum var aflétt og bætti við að ef það væri ekki gert nú þyrfti jafnvel að hafa þær í gildi fram á næsta ár. Frá 19. júlí hafa Bretar því getað sleppt því að nota andlitsgrímur, sótt tónleika og íþróttaviðburði og farið út að skemmta sér án takmarkana.
Þegar sóttvarnaaðgerðunum var aflétt greindust um 50.000 smit á dag en í stað þess að þeim fjölgaði mikið þá fækkaði þeim og í síðustu viku voru þau um 25.000 til 30.000 á dag. Sjúkrahúsinnlögnum hefur einnig fækkað en í lok júlí voru þær um 900 á dag en eru nú 750-800. Þetta gerist þrátt fyrir að Deltaafbrigðið herji á Bretlandseyjar.
Sérfræðingar hafa bent á að skýringanna á þessu megi meðal annars finna í því að Bretar hafa bólusett hratt og mikinn fjölda landsmanna. En þeir benda einnig á EM í knattspyrnu og sumarfrí skóla. Á meðan EM stóð yfir frá 11. júní til 11. júlí hópaðist fólk á yfirfyllta bari eða safnaðist saman í heimahúsum til að horfa á leiki. Í kjölfarið fjölgaði smitum en að mótinu loknu byrjaði þeim að fækka. Sumarfrí í skólum hófst nánast á sama tíma og sóttvarnaaðgerðum var aflétt og það hafði í för með sér að smitum fækkaði.
Franska dagblaðið Le Monde bendir einnig að COVID-forrit í farsímum Breta hafi komið við sögu því í júlí fengu milljónir Breta skilaboð í gegnum forritið um að fara í sóttkví því þeir höfðu verið nærri einhverjum smituðum. Þetta hafði þær afleiðingar um hríð að mörg fyrirtæki áttu í erfiðleikum með að finna starfsfólk, svo margir voru í sóttkví.
Breskir sérfræðingar eru ekki allir sammála um hvort þessi fækkun smita sé varanleg. Sumir telja að tími sé kominn til að einblína á hversu margir veikjast alvarlega en ekki hversu margir smitast. Aðrir telja of snemmt að segja til um hvort „veðmál“ Johnson með afléttingu sóttvarnaaðgerða hafi gengið upp.