„Erfitt að ræða sjúkdóminn opinberlega en mikilvægt að vekja athygli á honum“
Guðrún Helga Fossdal Reynisdóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á fitness og hefur sjálf tekið þátt í keppninni. Það sem hún gerði sér þó ekki grein fyrir var að í kjölfar þátttöku hennar þróaði hún með sér átkastaröskun sem hefur eyðilagt frama hennar í íþróttinni.
„Átkastaröskunina þróaði ég með mér eftir að ég fór í fitness vegna þess að ég var og er með átröskun, ekki vegna þess að ég fór í fitness. Ég er með óheilbrigða ímynd gagnvart mat og líkamsrækt. Ég á yfir höfði mér margra ára meðferð til þess að fá allt í jafnvægi aftur. Ef ég hefði hlustað á sjálfa mig frá byrjun og viðurkennt um leið að ég ætti við átröskun að stríða og hefði tekið á því áður en ég tók þátt í fitness þá hefði ég öðlast meiri frama,“ segir Guðrún.