Skemmtistaðurinn Bankastræti Club var opnaður fyrir nokkru síðan í húsnæðinu sem hýsti áður hinn geysivinsæla stað, B5. Klúbburinn er ekki með sama sniði og aðrir skemmtistaðir hér á landi því kaupa þarf miða eða vera með áskrift til að komast inn.
Dyrnar á staðnum hafa verið læstar undanfarið og er stefnt á að opna aftur 14. ágúst. Ekki er vitað hvort það muni tefjast en í gær var tilkynnt að þær sóttvarnaaðgerðir sem hafa verið í gildi síðustu vikur verði framlengdar um tvær vikur.
Á glugga staðarins er svört filma með merki Bankastræti Club og niðri í hægra horninu er lítill texti. Þar segir: „Keyptu miða á blcub.is og slepptu við vesenið við hurðina“.
Keyptu er ekki málfræðilega réttur boðháttur af sögninni „að kaupa“ heldur ætti frekar að standa „kauptu“. Þá er heimasíða staðarins ekki blcub.is heldur bclub.is en þar er hægt að panta flöskuborð og kaupa áskrift og aðgangsmiða.