fbpx
Laugardagur 08.febrúar 2025
Fréttir

Nágranni Páls á Húsafelli birtir yfirlýsingu – „Ég mótmæli því harðlega að vera sakaður um stífni, frekju og fégræðgi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 10. ágúst 2021 19:43

Páll á Húsafelli - mynd/Frettabladid

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nágranni Páls Guðmundssonar, högglistamanns á Húsafelli, hefur sent frá sér yfirlýsingu í tilefni umfjöllunar um örlög steinasafns Páls. Nágranni Páls, Sæmundur Ásgeirsson, kærði framkvæmdina og hafði sigur fyrir dómi. Var Páli gert að rífa húsið og hófst niðurrif þess þann 6. ágúst. Frá uppkvaðningu dómsins voru Páli gefnir 60 dagar til að rífa legsteinahúsið og fjarlægja öll verksummerki um það, að viðlögðum 40 þúsud króna dagsektum.

Páll segir í Facebookfærslu sem vakið hefur mikla athygli og viðbrögð að nágranni hans, Sæmundur, hafi gefið sér von um að hægt væri að leysa málið með samkomulagi en kröfur hans til að Páll kæmist hjá dagsektum væru með öll óaðgengilegar. Niðurrifi hússins verður lokið 31. ágúst næstkomandi.

Hundruð ummæla hafa verið rituð undir færslu Páls og fara þar margir hörðum orðum um nágrannann, Sæmund. Ljóst er að mörgu menningarfólki og listunnendum svíður að sjá safnið hverfa.

Sæmundur Ásgeirsson segir hins vegar í yfirlýsingu sem hann sendi DV að ákvörðun um að stefna í málinu hafi verið tekin eftir árangurslausar tilraunir til að fá Pál og Borgarbyggð til að semja um málið og breyta deiliskipulagi á svæðinu. Segir jafnframt í yfirlýsingunni að ef rétt hefði verið staðið að málum í upphafi og samráð haft við nágranna hefði þessi staða sem málið er komið í núna aldrei þurft að koma upp.

Segist hafa lagt til að dagsektir yrðu felldar niður

Sæmundur bendir á að krafan um niðurrif hússins sé aðeins hluti af þeim deilumálum sem hér eru undir og í tilraunum sínum til að semja um málið með aðstoð Borgarbyggðar hafi hann lagt til að dagsektir yrðu felldar niður. Sendi hann frá sér samningsdrög til Borgarbyggðar og Páls sem hann hafi ekki fengið málefnaleg svör við af hálfu Páls. Samkvæmt drögunum falli dagsektir niður og engar fjárkröfur séu gerðar á Pál.

Málinu tengjast einnig deilur Sæmundar við Borgarbyggð vegna synjunar sveitarfélagsins á því að mæla með því að hann fái rekstrarleyfi fyrir gistiheimilið Gamla bæ á jörð sinni, Húsafelli 1, á meðan öll önnur sambærileg gistiheimili i Borgarbyggð hafi fengið rekstrarleyfi. Hefur Sæmundur sakað sveitarstjórn um að reyna að knýja hann til að samþykkja óleyfisbyggingar gegn rekstrarleyfinu en forsenda fyrir því sé samþykkt á nýju deiliskipulagi á svæðinu. Þessum ásökunum hefur sveitarstjórn neitað harðlega. DV hefur áður fjallað um þennan hluta deilnanna, þ.e. um rekstrarleyfi fyrir gistihúsið:

Sjá einnig: Stríð um rekstrarleyfi í Borgarbyggð

Þessi deilumál eru öll nokkuð flókin en Sæmundur fer yfir þau í yfirlýsingu sinni sem birtist hér að neðan:

 

Yfirlýsing vegna legsteinasafns á Húsafelli

Þær umtöluðu deilur vegna byggingaframkvæmda á Húsafelli sem hafa verið í fréttum undanfarið hefðu aldrei komið upp ef rétt hefði verið staðið að málum að hálfu umbjóðanda Páls Guðmundssonar og Borgarbyggðar og samráð hefði verið haft við nágranna. Þessum aðilum var vel kunnugt um andstæðu nágranna við framkvæmdina áður en hún fór af stað. Húsafell er stórt land og næg tækifæri voru til að byggja húsið örlítið austar í landinu. Þá hefði aldrei hefði verið deilt um bygginguna né farið í málaferli vegna hennar.

Rétt er að taka fram að mál þetta hefur fyrir hönd Páls Guðmundssonar verið rekið af Helga Kr. Eiríkssyni, sem stýrir sjálfseignarstofnuninni Gömlu sporin, sem Páll hefur ánafnað listaverkum sínum. (Sjá frétt Skessuhorns: https://skessuhorn.is/2018/03/12/sjalfseignarstofnunin-gomlu-sporin/)

Um mitt sumar 2016 verð ég þess var að búið var að samþykkja deiliskipulag fyrir land nágranna míns. Þetta deiliskipulag hafði verið samþykkt af Borgarbyggð snemma árs 2015 og auglýst í B deild stjórnartíðinda í júní sama ár. Mörg lög voru brotin í því ferli eins og fram hefur komið í úrskurðum umboðsmanns Alþingis (UA) og Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál (ÚUA) ásamt dómsniðurstöðu. Ég reyndist vera með lögin mín megin.

Páll fékk tvisvar útgefin byggingarleyfi, það seinna með þeim fyrirvara frá Borgarbyggð að málið væri í kæruferli og framkvæmdir væru á hans ábyrgð. Það er því rangt sem kemur fram í yfirlýsingu Páls að hann hafi verið í góðri trú við framkvæmdirnar.

Páll fékk 60 daga eftir dóminn til að fjarlægja húsið en ekki 30 daga eins og hann heldur ranglega fram í yfirlýsingu.

Ákvörðun um að stefna Borgarbyggð var tekin í byrjun árs 2019 eftir árangurslausar tilraunir til að fá Pál og Borgarbyggð til að semja um málið og breyta deiliskipulaginu.

Lögmaðurinn sem annaðist málið fyrir mig sagði að nauðsynlegt væri að stefna Páli líka svo réttarhagsmuna hans væri gætt.

Borgarbyggð sem vissi af yfirvofandi stefnu brást við með því að sveitarstjórnin gaf út og samþykkti byggingarleyfið en ekki byggingarfulltrúi eins og vera ber samkvæmt lögum. Þegar málið var dómtekið hafði Borgarbyggð dregið samþykkt sveitarstjórnar til baka og byggingarfulltrúi gaf út nýtt byggingarleyfi. Þar með þurfti að visa þeim hluta stefnunnar sem sneri að Borgarbyggð frá og Páll einn dregin til ábyrgðar eins og lög gera reyndar ráð fyrir í svona málum.

Ég lagði til strax eftir dóminn að reynt yrði að semja um málið með aðstoð Borgarbygðar. Ég bauðst til að dagsektir yrðu felldar niður meðan samið yrði um málið og miðað væri við 15 des. 2020 í stað 14 sept. Aftur hef ég fellt niður dagsektir til að auðvelda samninga, nú í tvo mánuði.

Ekkert málefnalegt svar hefur komið frá Páli vegna þeirra samningsdraga sem ég sendi til lögmanns Páls og Borgarbyggðar. Ath. að ekki var um kröfur að ræða heldur samningsdrög og fimm daga svarfrestur gefinn. Páll hafnaði samningsdrögunum samdægurs án útskýringa.

Engar fjárkröfur eru gerðar á hendur Páli, þvert á móti munu dagsektir falla niður náist samningar samkvæmt samningsdrögum. Hins vegar er gerð krafa um að Borgarbyggð greiði bætur fyrir hluta þess tjóns sem stjórnsýsla sveitarfélagsins hefur valdið.

Fæstar af þeim tillögum sem koma fram í samningsdrögunum snúa að Páli. Stærstur hluti þeirra snýr að Borgarbyggð og varða aðallega skipulagsmál, en einnig bótakröfu. Skipulagsmálin varða nýtingu á væntanlegum sumarhúsum á mínu landi og umferð innan míns lands að þeim sumarhúsum.

Ég geri ekki ráð fyrir því að Páll hafi haft sterkar skoðanir á þeim atriðum sem snúa að nýtingu sumarhúsa í mínu landi en það hafa aðrir landeigendur á Húsafelli. Höfnun samningsdraganna hvað þessi atriði varðar kemur að líkum frá öðrum en Páli. Í vinnslutillögu að aðalskipulagsbreytingu fyrir þetta svæði er tekið fram að sumarhús á mínu landi megi ekki nota fyrir rekstur gistiheimilis í flokki II. Þó er slíkur rekstur í sumarhúsum í landi Húsafells hinum megin við þjóðveginn. Þetta ákvæði er sett inn að kröfu samkeppnisaðila minna og ég hef hafnað því. Það er óþekkt að slíkt ákvæði sé sett inn í aðalskipulag. Eins hef ég hafnað kröfu um að ég borgi fyrir nýjan veg að mínu landi, þar sem ég kaupi landið með aðkomu.

Nokkur atriði snúa samt að Páli:

1: Skipting á bílastæði í landi Páls sem kvöð er á að séu sameiginleg með gistiheimilinu Gamla bæ.

2: Páll afhendi yfirlýsingu frá réttum eigendum tiltekinna legsteina þar sem fram kemur að ég verði ekki gerður ábyrgur fyrir legsteinum sem ég fékk að láni.

3: Í samningsdrögunum er gert ráð fyrir ákveðnum hámarksfjölda daglega að legsteinaskála.

Aðkoma sveitarstjórnar og starfsmanna Borgarbyggðar:

Aðkoma  byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa, sveitarstjóra og sveitarstjórnar Borgarbyggðar einkennist af mikilli hlutdrægni og þeir hafa beitt sér til að knýja fram ákveðna niðurstöðu. Vísað er til úrskurða og dóma þar sem brot Borgarbyggðar koma fram.

Það er af nógu að taka þegar vinnubrögð Borgarbyggðar eru rýnd. Ólöglega staðið að gerð deiliskipulags, engin grenndarkynning, rangt nafn, fundargerðir ekki birtar.

Borgarbyggð gaf ítrekað út, að ráði skipulagsstjóra, nýtt byggingarleyfi fyrir legsteinasafn þó ljóst væri að það stæðist ekki lög. Byggingarleyfi var tvívegis fellt úr gildi eftir kæru. Þáverandi skipulagsstjóri Borgarbyggðar setti rangt nafn á deiliskipulagið og skráði mig sem umsagnaraðila. Byggingarfulltrúi Borgarbyggðar leiðrétti ekki mistökin, né lét hann mig vita af gerð skipulagsins.

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri Borgarbyggðar neitaði að gefa jákvæða umsögn þannig að nýtt rekstrarleyfi fengist fyrir gistiheimilið Gamla bæ í nóvember 2020. Hún bar fyrir sig lög frá 2017 sem segja að aðalskipulag skuli leyfa slíkan rekstur. Gamli bær er eina gistiheimilið sem hefur fengið höfnun á þessum forsendum. Þórdís hefur viðurkennt að forsvarsmaður Ferðaþjónustunnar Húsafelli hafi krafist þess að ekki væri gefið út nýtt rekstrarleyfi fyrir gistiheimilið.  Öll önnur sambærileg gistiheimili í Borgarbyggð hafa hins vegar fengið rekstrarleyfi, líka eftir að rekstrarleyfið var tekið af mér. Þessi vinnubrögð hafa ekki gert lausn málsins auðveldari.

Þau málalok sem Páll hefur ákveðið eru á hans ábyrgð og Borgarbyggðar. Ég hef reynt til hins ýtrasta að ná samningum og eytt til þess miklum tíma og fjármunum. Meðal annars er lögfræðikostnaður minn vegna þessara samninga sem mér ber engin skylda til að koma að orðinn rúmar þrjár milljónir. Tjón vegna niðurfellingar á rekstrarleyfi er líka mikið.

Ég mótmæli því harðlega að vera sakaður um stífni, frekju og fégræðgi. Ég hef fulla samúð með Páli en hann er leiksoppur i þessu máli eins og ég. Þeir sem hann hefur treyst fyrir sínum málum bera ábyrgð á þessum mistökum.

Húsafelli 10. ágúst 2021   Sæmundur Ásgeirsson

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sagður reiða fram hundruð milljóna reglulega til að bjarga Pizzunni frá gjaldþroti

Sagður reiða fram hundruð milljóna reglulega til að bjarga Pizzunni frá gjaldþroti
Fréttir
Í gær

Færa baráttuna við Bakkavararbræður til Íslands – „Þar sem borgarar hafa séð skaðann sem Guðmundssynirnir geta valdið“

Færa baráttuna við Bakkavararbræður til Íslands – „Þar sem borgarar hafa séð skaðann sem Guðmundssynirnir geta valdið“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu

Svona er Donald Trump sagður ætla að stöðva stríðið í Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad

Staðfesta átta ára fangelsis­vist yfir Mohamad
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tálbeituhópur neitar ásökunum um fjárkúgun – „Ef þú skráir þig þarna þá veistu að þú ert að fara að horfa á ólöglegt efni“

Tálbeituhópur neitar ásökunum um fjárkúgun – „Ef þú skráir þig þarna þá veistu að þú ert að fara að horfa á ólöglegt efni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nágrannaerjur í stóru fjölbýlishúsi – Ásakanir um leyndarhyggju og sérmeðferð

Nágrannaerjur í stóru fjölbýlishúsi – Ásakanir um leyndarhyggju og sérmeðferð