Politiken skýrir frá þessu. Fram kemur að rekja megi sérstaklega mörg tilfelli til Spánar en þar herjar heimsfaraldurinn af miklum krafti. Danska utanríkisráðuneytið hvetur landsmenn til að „sýna sérstaka aðgæslu“ ef þeir fara til Spánar.
Einnig koma margir smitaðir heim úr fríi í Frakklandi, Grikklandi, Tyrklandi og Búlgaríu. Í öllum þessum löndum eru smit mun fleiri hlutfallslega en í öðrum Evrópulöndum sem Danir fara gjarnan til í frí.
Søren Riis Paludan, prófessor í smitsjúkdóma- og ónæmisfræði við Árósaháskóla, sagðist í samtali við Politiken ekki hafa miklar áhyggjur af þessu. Búið sé að bólusetja alla í áhættuhópum og því eigi ekki að einblína svo mikið á fjölda smita. „Svo lengi sem þetta veldur ekki vandræðum fyrir heilbrigðiskerfið eða lýðheilsuna almennt þá sé ég engan sérstakan vanda við þetta,“ sagði hann.