Svanasöngur stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar ómaði hugsanlega í vikunni þegar Björt Ólafsdóttir, formaður flokksins, staðfesti að ekki yrði boðið fram undir merkjum flokksins í Reykjavík í vor. Össur Skarphéðinsson var fljótur til og skrifaði nöturleg minningarorð um flokkinn þar sem niðurstaðan var sú að pólitísk arfleið hans væri engin. Björt svaraði Össuri fullum hálsi og kallaði hann meðal annars krúttmús. Ólíklegt er að hinum aldna pólitíska ref hafi oft verið líkt við nagdýr, eða að minnsta kosti ekkert mjög oft.
Eins og margir vita er Björt Ólafsdóttir yngri systir körfuboltakappans og fjárfestisins Fannars Ólafssonar. Faðir Bjartar og Fannars er Ólafur Einarsson, handboltakappi með meiru. Albróðir Ólafs er Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Pólitískur ferill Gunnars er á blússandi siglingu en nýverið var tilkynnt að hann yrði áfram bæjarstjóraefni Sjálfstæðismanna í Garðabæ í komandi sveitarstjórnarkosningum. Skipar Gunnar 8. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.