Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Páli að dregið hafi úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu þegar Holuhraunsgosinu lauk í febrúar 2015. Hún hafi síðan aukist árin á eftir en heldur hafi dregið úr henni á síðasta ári.
Morgunblaðið hefur eftir honum að líklega hafi landris valdið skjálftunum, GPS-mælingar sýni að Bárðarbunga hafi verið að þenjast út. „Það eru tvær hugmyndir á lofti um hvað valdi því. Annars vegar að þar sé kvikusöfnun og að Bárðarbunga sé að búa sig undir næsta gos. Hin er að hún sé að jafna sig eftir átökin í eldgosinu. Þrýstingurinn hafi lækkað svo mikið að nú dragi hún að sér kviku. Það er ekki beinlínis auðvelt að gera upp á milli þessara tveggja kenninga,“ sagði hann.
Hann sagði að ef gos sé í undirbúningi þá séu skjálftarnir merki um það. „En það er ekkert að fara að gjósa á morgun eða hinn,“ sagði hann einnig.