CNN skýrir frá þessu og hefur eftir heimildarmönnum innan stjórnkerfisins. Biden staðfesti í gær að innan stjórnar hans væri verið að íhuga að skylda alríkisstarfsmenn til að láta bólusetja sig. „Það er verið að íhuga það núna,“ sagði forsetinn.
Smitum hefur fjölgað mjög í Bandaríkjunum að undanförnu og hafa sérfræðingar og smitsjúkdómastofnun landsins, CDC, nú mælt með því að bólusett fólk noti andlitsgrímur við ákveðnar kringumstæður. CDC mælir með að bólusett fólk noti andlitsgrímur innanhúss á opinberum stöðum að sögn Rochelle Walensky, forstjóra stofnunarinnar. Þetta er kúvending hjá stofnuninni en fyrir nokkrum dögum varði hún ákvörðun sína frá í maí um að falla frá fyrri tilmælum um að bólusett fólk notaði andlitsgrímur. Stefnubreytinguna má rekja til aukinnar útbreiðslu Deltaafbrigðis veirunnar en það er mun meira smitandi en önnur afbrigði hennar.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í gær kemur fram að á morgun muni Biden tilkynna „næstu skref“ til að reyna að fá fleiri Bandaríkjamenn til að láta bólusetja sig. Tæplega helmingur Bandaríkjamanna hefur lokið bólusetningu og 7,6% til viðbótar eru byrjuð á bólusetningaferlinu.