Morgunblaðið hefur þetta eftir Herði Orra Grettissyni, formanni þjóðhátíðarnefndar. „Það er ómögulegt að segja hvort við fáum einhvern styrk frá ríkinu, en okkur fyndist það eðlilegt þegar lokað er á hátíðina með viku fyrirvara. Það er stjórnvaldsaðgerð og því hljóta yfirvöld að hafa tekið áhrifin af henni með í reikninginn. Ríkisstjórnin hlýtur að hafa gert það,“ er haft eftir honum.
Engir ríkisstyrkir fengust á síðasta ári vegna tekjutapsins en á móti kom að ÍBV, sem stendur fyrir hátíðinni, fékk styrki frá ýmsum aðilum. Vestmannaeyjabær styrkti félagið um 20 milljónir og nokkur stöndug fyrirtæki í bænum styrktu félagið einnig.
Hörður sagði að þessir styrkir hafi bjargað félaginu fyrir horn á síðasta ári og hafi það rétt svo náð að halda velli.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagði mikið áfall að fresta þurfi hátíðinni annað árið í röð. Hún sagði ekki byrjað að ræða hvort bæjarfélagið þurfi að styrkja ÍBV til að hægt verði að halda uppi barna- og unglingastarfi. Hún sagði að ríkið hafi ekki komið neitt að málum á síðasta ári en henni finnist eðlilegt að ÍBV ræði við ríkið nú því aðstæðurnar séu allt aðrar en á síðasta ári.