Myndin hefur verið mikið til umfjöllunar á samfélagsmiðlum í sumar og margir hafa deilt henni á Facebook og Twitter.
Í texta með myndinni segir að hún sýni rafbíla sem er búið að safna saman á stóru svæði í Frakklandi. Ástæðan sé að rafgeymar þeirra séu svo lélegir að þeir séu ekki nothæfir og bílarnir séu þar með ónothæfir og óseljanlegir. Þetta vakti upp hörð viðbrögð margra sem eru mótfallnir rafbílum.
„Hvað sagði ég?“
„Rafbílar eru ekki framtíðin, myndin sannar það.“
„Þegar rafgeymarnir eru dýrari en bíllinn verður þetta svona.“
„Og þetta er sagt vera umhverfisvænt!“
Þetta eru nokkur þeirra ummæla sem voru látin falla um bílana.
En hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir sýnast eða sagt er og það á við í þessu tilfelli. Á heimasíðunni källkritikbyran.se, heimasíðu sem hefur sérhæft sig í að kanna áreiðanleika heimilda, kemur fram að myndin sé fyrir það fyrsta ekki tekin í Frakklandi og að á henni séu ekki rafbílar með ónýta rafgeyma. Með því að skrifa rangan texta við myndina, og fleiri álíka myndir, hafa þær verið notaðar í umræðunni um rafbíla.
Källkritikbyran.se komst að því að myndin var tekin í Kína en ekki Frakklandi. Bílarnir eru notaðir og ónotaðir bílar sem bílaleiga ein átti en hún varð gjaldþrota 2019. Bílarnir stóðu því ónotaðir í Hangzhou þegar myndin var tekin.
Það var pólski áhrifavaldurinn Greg Abandoned sem tók myndina en hann býr í Kína. Myndina tók hann þann 3. maí síðastliðinn og eftir það hefur hún verið á miklu flugi á samfélagsmiðlum.