„Hvenær ríður maður barni og hvenær ekki?“ spyr Sindri Þór Hilmars-Sigríðarson, markaðsstjóri hjá Tjarnarbíó og aktívisti, í opinni færslu á Facebook-síðu sinni en hann er einn þeirra fimm einstaklinga sem hefur fengið kröfubréf frá Ingólfi Þórarinssyni, sem yfirleitt er kallaður Ingó Veðurguð, vegna ummæla sem skrifaði.
Sindri segir að ástæðan fyrir færslunni sé sú að honum langaði að skrifa nokkur orð um „fáránleika“ kröfubréfanna og hótana þeirra Ingólfs og lögmanns hans Vilhjálms Vilhjálmssonar. Með færslunni lætur hann fylgja með mynd af kröfubréfinu en þar má sjá ummælin sem Ingólfur vill að Sindri dragi til baka og biðjist afsökunar á.
Ummælin eru þrjú og eru eftirfarandi:
„Á Íslandi er hver manneskja undir 18 ára aldri „barn“ í skilningi laga. Að sofa hjá, ríða jafnvel, barni sem fullorðin manneskja er ekki brot á almennum hegningarlögum nema í undantekningartilvikum, svo lengi sem barnið hefur náð 15 ára aldri. Sú sturlaða staðreynd er svo efni í annað Ted Talk, en látum það vera í bili,“ segir Sindri í færslunni. „Sveinn Andri barnaði 16 ára stúlku þegar hann var 47 ára og taldist vera í fullum rétti í skilningi laganna. Ég þori að hengja mig upp á að bæði Ingólfur og Vilhjálmur viti vel hvenær má ríða barni og hvenær ekki.“
Sindri vill meina að sú fullyrðing að fullorðinn maður hafi riðið barni, jafnvel að hann hafi stundað það um árabil, sé engan veginn ótvíræð ásökun um refisvert athæfi. „Og ég get vísað í dómafordæmi hæstaréttar þar sem segir að ásökun um hegðun sem ekki endilega er refsiverð geti ekki talist ærumeiðandi. Það er sem sagt ekki nokkur einasti fótur fyrir kæruhótunum Ingólfs, að minnsta kosti í mínu tilfelli.“
Þá segir Sindri að ef Ingólfur les ummæli sín og telur að með þeim sé hann að væna hann um barnaníð þá viti hann mögulega eitthvað upp á sig sem hann veit ekki. „Máske svipað og þegar hann las setninguna: „Það var þjóðþekktur tónlistarmaður sem nauðgaði mér þegar ég var 17 ára.“ og hugsaði „Hér er átt við mig!“ En ég veit auðvitað ekkert um það og hef aldrei sakað hann um neitt slíkt, hvorki hér né áður.“
Hlakkar til að mæta Ingólfi í dómssal
Að lokum segir Sindri að hann hlakki til að mæta Ingólfi í dómssal. „Ástæðan fyrir því að ég segist hlakka til að mæta Ingólfi í dómssal er að ég er með 100 kommenta twitter þráð og inbox fullt af skilaboðum með vitnisburði um hans hegðun síðastliðin ár,“ segir Sindri sem er áhyggjulaus.
„Ég hef engar áhyggjur af því að honum eða Vilhjálmi takist að sýna að ég hafi sakað Ingólf um refsiverðan verknað. Ég einfaldlega gerði það ekki. En ég iða af tilhlökkun að sjá hann reyna að sýna fram á að ég hafi sagt ósatt og gera þá í leiðinni allar þessar sögur að opinberum dómsskjölum, ævinlega tengdum nafni hans. Þegar Ingólfi rennur heiftin mætti hann íhuga hvenær gröfin sem hann grefur sér er orðin nógu djúp.“