Á síðustu sjö dögum hefur smitum fjölgað um tíu prósent en um þrjár milljónir smita hafa greinst á þessum dögum.
Flest smit hafa greinst í Brasilíu, Indland, Indónesíu og Bretlandi.
Dauðsföllum hefur fjölgað um þrjú prósent á heimsvísu síðustu sjö daga en 55.000 létust af völdum COVID-19.
Bakslagið er sagt vera vegna þess hversu fáa er búið að bólusetja, afléttingu sóttvarnaaðgerða á borð við notkun andlitsgríma og útbreiðslu hins smitandi Deltaafbrigðis en WHO hefur fundið afbrigðið í 111 löndum og væntir þess að það verði ráðandi á heimsvísu næstu mánuðina.
Vegna þess að faraldurinn er í sókn hefur verið gripið sóttvarnaráðstafana á nýjan leik í mörgum löndum, til dæmis í Hollandi og Ástralíu.
Í Belgíu hefur fjöldi smita næstum tvöfaldast á milli vikna en Deltaafbrigðið hefur breiðst sérstaklega hratt út meðal ungs fólks. Í Bretlandi hafa rúmlega 40.000 smit greinst á sólarhring í þessari viku. Í Argentínu hafa nú rúmlega 100.000 látist af völdum COVID-19 og í Rússlandi er dánartíðnin í hæstu hæðum frá upphafi faraldursins. Í Bandaríkjunum fer smitum fjölgandi en landið er meðal þeirra landa þar sem flestir hafa hlutfallslega verið bólusettir. Síðustu tvær vikurnar hafa um 24.000 smit greinst á sólarhring þar í landi en dauðsföllum hefur farið fækkandi og eru nú um 260 á sólarhring.