„Ástæða fyrir því að algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi er sjálfsmorð.“
„Svo var ég líka búinn að gráta svo mikið að ég gat ekki grátið lengur og fór eiginlega í trans. Ég var á sjálfvirkri stillingu. Þessa síðustu klukkutíma, þegar ég var uppi á sviði í bæði skiptin, þá flaug ég út úr líkamanum og horfði á sjálfan mig syngja. Ég var ekkert við stýrið,“ sagði Ari Ólafsson í samtali við Vísi í dag þegar hann lýsti tilfinningunni þegar tilkynnt var að hann hafði borið sigur úr bítum í Eurovision en Ari söng með miklum sóma lagið Our Choice.
Fyrir söngvakeppnina vissu fáir um tilvist Ara, sem er aðeins 19 ára gamall. Í dag veit nánast öll þjóðin hver þessi ungi og efnilegi söngvari er. Fleiri bjuggust við að Dagur Sigurðsson myndi sigra og þegar í ljós kom að Ari myndi syngja framlag Íslands í aðalkeppninni greip um sig nokkur æsingur á samskiptamiðlum og enn og aftur skiptir Eurovision þjóðinni í tvær stríðandi fylkingar. Fjöldi dæma var um hjá stuðningsmönnum Dags að þeim fannst hinn ungi Ari helst til of tilfinningasamur. Ari hafði grátið oftar enn einu sinni á meðan útsendingu stóð.
Á Twitter og á Facebook má sjá ótal innlegg þar sem gert er lítið úr sigurvegaranum fyrir að gráta og sýna tilfinningar. Í nokkuð mörgum tilvikum má sjá Ara líkt við Ingu Sæland alþingismann og formann Flokk fólksins. Tekið skal fram að ekki var verið að bera þau saman í söng þó Inga þyki ágæt söngkona, heldur var þarna vísað til þess þegar Inga komst við í leiðtogaumræðum í beinni á RÚV fyrr í vetur. Flokkurinn náði síðan mun betri kosningu en búist var við og árangurinn settur í samhengi við tár Ingu í sjónvarpssal. Stuðningsmenn Dags vildu því meina að Ari hefði vælt sig á toppinn og uppnefndu hann m.a. grenjAri
Þegar Ari feldi fyrst tár eftir flutning sinn byrjuðu gagnrýnisraddir á Twitter en tekið skal fram að þeir sem hrósuðu Ara fyrir að sýna tilfinningar voru mun fleiri.
„Ari að taka Ingu Sæland trixið og grenja,“ sagði Bjarki Kristjánsson á Twitter. „Var að fatta einn góðan haha, Ari bara alveg eins og Inga Sæland,“ sagði Gummi. Og tístin héldu áfram að flæða inn. „grenjARI,“ sagði Magnús og Hörður Ágústsson bætti við: „Ok, Ingu Sæland aðferðin. Fíla það.“ Bergsteinn Sigurðsson sagði: „Ari ætlar að InguSælanda sig á toppinn“
Ekki var betur um að litast á Facebook. Á stuttri yfirferð var að finna nokkurn fjölda innleggja
Á Facebook sagði Bjarney og Helgi Sæm: „Ljótt að segja það en það er bæði hægt að gráta sig inn á þing og í eurovision úrslit.“ Væludrengur, sagði Torfi Þórarinsson og uppskar 18 læk. „Grenjari,“ sagði Ragnar nokkur Mich. Siggi Braga sagði: „Að væla dugar á Íslendinga, spyrjið bara Ara og Ingu Sæland.“
Linda Björk Hjördísardóttir spurði: „Ef ég fer að grenja opinberlega kemst ég þá bæði á þing og í eurovision“ Róbert Gils sagði: „ Vona að krakkinn verður hættur að grenja þegar hann þarf að syngja í 20 þúsund manna höll.“ Þá sagði Kristinn Ingi Valsson að næst þegar hann langaði í eitthvað ætlaði hann að grenja.“ Bragi Pál Bragason sagði: „Góð landkynning, grenjandi út í eitt. Vantar allan pung.“
Ótal fleiri komment í þessa veru, helst frá karlmönnum er að finna á samskiptamiðlum. Svo virðist sem flestir hafi fengið sig fullsadda af því hvernig þessi hópur fólks hefur boðið hinn unga hæfileikaríka söngvara velkominn í poppbransann og mynda nú varnarmúr utanum hinn tilfinningaríka Ara.
Gunnar Karl Ólafsson spyr einfaldlega: „Hvað er að Íslendingum?“ Hann bætir við: „Fólk fer í fýlu út af því að Dagur tapaði. Gerir það svo með því að rakka niður Ara fyrir að vera opinn með tilfinningarnar sínar. Það er alveg ástæða fyrir því að algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi er sjálfsmorð.
Ég fæ uppí kok af svona hroka. Báðir með flott lag og annar vann. Til hamingju með sigurinn Ari og til hamingju Dagur með frábæra frammistöðu.”
Þá vörðu margar konur Ara en Sigga Eyrún sagði á Facebook: „Gerum endilega grín að KK söngvaranum sem sýndi tilfinningar í sjónvarpinu. Það ætti að laga geðheilsu drengjanna okkar.“ Þá sagði Elísabet Anna: „Djöfull er Ari flott fyrirmynd fyrir unga stráka! Ungur maður með TILFINNINGAR.“
Gestur Pálmason segir:
„Ég sé ekki vandamálið við að 19 ára gamall drengur sem er að eiga eina stærstu stund söngferils síns (sem hann er búinn að byggja upp með þrotlausri vinnu í mörg ár) og á leiðinni í þriggja vikna ævintýri til Portúgal að syngja fyrir milljónir manna láti tilfinningarnar bera sig ofurliði. Þegar ég hugsa um það þá fyndist mér reyndar skrítið að dæma hann hvort sem ég hefði skoðun á þessu eða ekki. Ég á alveg nóg með sjálfan mig og hygg að það eigi flestir.“
Birgir Sævarsson segir:
„Ef ég myndi performa svona vel fyrir framan troðfulla Laugardalshöll og alla þjóðina í camerum, komast í einvígið og vinna… allt þetta 19 ára og ekki vanur slíkri rússíbanaferð… ég myndi grenja eins og ungabarn allan tímann! alvöru karlmenn gráta!“