Bærinn Lytton í Bresku Kólumbíu hefur verið töluvert í fréttum að undanförnu en þrjá daga í röð, á sunnudaginn, mánudaginn og þriðjudaginn, voru hitamet sett í bænum en þá mældist hæsti hiti sem mælst hefur í Kanada frá upphafi mælinga. Hæst fór hitinn í 49,7 gráður á þriðjudaginn. Nú er bærinn aftur í fréttum en ekki vegna hitamets heldur vegna skógarelda sem herja á svæðið.
Allir 250 íbúar bæjarins hafa verið fluttir á brott. BBC segir að um 90% bæjarins hafi brunnið. Ekki er vitað hvort manntjón hefur orðið í eldhafinu.
Jan Polderman, bæjarstjóri, sagðist hafa verið heppinn að sleppa lifandi úr bænum. „Það er ekki mikið eftir af Lytton. Það var eldur alls staðar,“ sagði hann.