fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fókus

Karlmenn sem drepa konur

Konur sem hafa verið myrtar af mökum eða elskuhugum – Ofbeldi gegn konum er vandamál á Íslandi – Algengast að karlmaðurinn var ósáttur og vildi ekki missa konu sína

Ritstjórn DV
Laugardaginn 10. mars 2018 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kynbundið ofbeldi og kvenmorð eiga sér stað á Íslandi. Síðastliðinn 30 ár hafa tíu konur verið myrtar af mökum eða elskuhugum. DV fór yfir morðin og skoðaði rannsókn Bjarndísar Hrannar Hönnudóttur á kvenmorðum á Íslandi. Bjarndís telurl ljóst að úrræði vantar fyrir konur í ofbeldisfullum samböndum.

Í gær stigu konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum fram og fóru af stað með herferðina #Aldreiaftur. Fólk getur notað fjólubláar og bleikar myndir á Facebook til að láta vita hvort það hafi orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi eða þekki einhvern sem hefur sætt ofbeldi í slíku sambandi. Með notkun myndanna ætla konur sér að vekja athygli á málefninu. Áður hafa sömu myndir verið notaðar í öðruvísi litum í samfélagshreyfingunni #þöggun árið 2015. Þá voru myndirnar gular og appelsínugular og voru til þess að vekja athygli á hve algengt kynferðisofbeldi var og til að rjúfa þöggun um málefnið.

Rannsakaði kvenmorð á Íslandi

Bjarndís Hrönn Hönnudóttir framkvæmdi rannsókn sem lokaverkefni til meistaragráðu og starfsréttinda við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Markmið rannsóknar Bjarndísar var að kanna hvort til séu dæmi um kvenmorð (e. femicide) á Íslandi. Bjarndís skoðaði dóma frá árunum 1994–2014. Niðurstöður hennar gáfu til kynna að kvenmorð séu framin hér á landi. Algengast var að konur væru myrtar í kjölfar ofbeldissambands, þá oftast í skilnaðarferli eða eftir skilnað. Í ritgerðinni kemur fram að ofbeldi í nánum samböndum skiptist í fjóra flokka, líkamlegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, tilfinningalegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi.

Í ritgerð sinni fjallaði Bjarndís um mismunandi kenningar sem fræðimenn hafa sett fram um ofbeldi í nánum samböndum. Til dæmis um ógnarstjórn feðraveldisins og kenningar um makaofbeldi. Þá kemur fram að samkvæmt ýmsum rannsóknum séu kynin álíka líklega til að beita ofbeldi. Karlmenn geta því einnig orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum og upplifað sig sem fórnarlömb.

Kenningin um ógnarstjórn feðraveldisins er líklega í takt við hugrenningar flestra þegar talað er um heimilisofbeldi. Hún vísar í yfirráð karla og yfirburði þeirra í samfélaginu sem sprottinn var af valdamisvægi og ójöfnuði. Þannig vísar einn angi kenningarinnar til þess að hluti eiginmanna hafi löngum beitt konur sínar ofbeldi til að að stjórna þeim og refsa.

Karlar eru ekki einir ábyrgir þegar kenningin um makaofbeldi er skoðuð. Sú kenning leggur áherslu á að þegar deilur maka fara úr böndunum geti annar aðilinn gripið til ofbeldis án þess að vera að reyna að ná völdum yfir maka sínum. Rannsóknir hafa sýnt að slíkt ofbeldi sé til en taka verður fram að þær rannsóknir hafa verið gagnrýndar.

Hvað eru kvenmorð?

Í rannsókn Bjarndísar kemur fram eftirfarandi um kvenmorð: „Kvenmorð vísa til ofbeldisfulls dauða kvenna eða einstaklinga sem samkvæmt skrám eru kvenkyns. Dauðsfall sem grundvallast á kynferði þeirra og getur hvort sem er orðið innan fjölskyldna, á heimili eða öðrum vettvangi mannlegra samskipta eða samfélags. Gerendur geta verið einstaklingar, ríki eða fulltrúar stjórnvalda, dauði þeirra getur orðið vegna beinna aðgerða eða aðgerðarleysis […] Kvenmorð eru angi af ofbeldi sem konur verða fyrir af hendi einstaklinga oft á tíðum í skjóli aðgerðarleysis stjórnvalda. Algengustu dæmi kvenmorða í vestrænum samfélögum eru morð í nánum samböndum. Kvenmorð er grófasta mynd ofbeldis gegn konum. Ofbeldi gegn konum er að jafnaði skilgreint sem kynbundið ofbeldi […] Ofbeldi gegn konum í nánum samböndum hefur verið skilgreint sem kynbundið ofbeldi, þar sem konur verða frekar fyrir þess háttar ofbeldi vegna stöðu sinnar í samfélaginu […] Kynbundin morð á konum eru ekki nýtt afbrigði ofbeldis gegn konum, heldur grófasta birtingarmynd þess. Konur búa við ótal mismunandi gerðir af samfelldu ofbeldi, hvort sem er innan fjölskyldunnar, í samfélaginu, eða af hálfu hins opinbera. Konur eru ekki myrtar skyndilega og að ástæðulausu, heldur er ofbeldið yfirleitt endir á lengri atburðarás þegar kona lætur lífið.“

Helstu niðurstöður

Bjarndís kannaði átta mál frá árunum 1994 til 2014 þar sem konur voru sviptar lífi. Sex þeirra voru kvenmorð.

„Tengslin voru með misjöfnum hætti en algengast var að brotaþoli væri eiginkona eða sambúðaraðili geranda,“ segir í rannsókn Bjarndísar.

Niðurstöður Bjarndísar Hrannar samræmast niðurstöðum erlendra rannsókna á kvenmorðum og ofbeldi gegn konum. Í 70 prósentum tilvika var kona myrt af þeim er hafði áður beitt hana ofbeldi.

Einnig kemur fram að það samræmist niðurstöðum rannsókna að konur kæri sjaldan þegar brotið er gegn þeim, þá sérstaklega þegar um náin tengsl er að ræða. Bjarndís bendir einnig á hvernig réttarkerfið kannar ekki ofbeldissögu gerenda og fórnarlambs.

„Ekki var spurt sérstaklega um sögu ofbeldis í sambandi, þá voru gerendur eða vitni ekki innt sérstaklega eftir upplýsingum um það eða sambandsstöðu. Kemur það heim og saman við niðurstöður erlendis frá þar sem saga um ofbeldi virðist sjaldan rata inn í réttarkerfið.“

Skilnaður áhætta

Samkvæmt niðurstöðum Bjarndísar er skilnaður áhættuþáttur fyrir konur. „Sama á hvaða stigi hann er. Öll mál þar sem hafði verið samband milli geranda og brotaþola mátti tengja við skilnað, eða voru í skilnaðarferli, að undanskildu einu, þar sem ekki nægilegar upplýsingar lágu fyrir. Algengast var að karlmaðurinn væri ósáttur og vildi ekki missa konu sína […] Áhættuþættir gerenda voru áfengis- og önnur vímuefnamisnotkun. Sammerkt var með flestum gerendum að þeir voru undir áhrifum áfengis eða annarra lyfja við verknaðinn.“

Feðraveldishugmyndir

Bjarndís telur að merkja mætti feðraveldishugmyndir meðal gerenda þar sem til staðar voru hugmyndir um eignarrétt gagnvart konunni.

„Einnig virtist stjórnun konunnar vera algeng meðal þeirra, ásamt hugmyndum um karlmennsku og hefðbundin hlutverk kvenna,“ segir Bjarndís í rannsókn sinni.

Úrræði

Í umræðu rannsóknarinnar tekur Bjarndís fram að úrræðum fyrir konur sem hafa búið við ofbeldi verði að fjölga hér á landi, sem og réttarvernd þeirra til að gera þeim kleift að ákæra þegar brotið er gegn þeim.

Að lokum segir Bjarndís:

„Ofbeldi gegn konum er vandamál á Íslandi og vert er að kanna betur stöðu kvenna innan réttarkerfisins sem hafa orðið fórnarlömb ofbeldis […] Þær konur sem hafa verið myrtar hér á landi síðastliðin tuttugu ár hafa í flestum tilvikum verið nákomnar geranda.“

Morð á konum á Íslandi síðastliðinn 30 ár

10. janúar 1988

Gréta Birgisdóttir (1961–1988) var myrt af eiginmanni sínum, Braga Ólafssyni (1936–2002).

Bragi myrti Grétu á heimili þeirra við Klapparstíg í Reykjavík. Hann hringdi á lögreglu og tilkynnti andlátið. Þegar lögreglan kom á vettvang var Bragi mjög ölvaður. Áverkar á líki Grétu leiddu til þess að hann var handtekinn en sparkað hafði verið í andlit og höfuð hennar og köðlum hafði verið vafið um háls hennar og þrengt að. Dánarorsök var köfnun. Fyrst um sinn neitaði Bragi að hafa myrt Grétu og sagði að hún hefði veitt sér áverkana sjálf. Að lokum viðurkenndi Bragi verknaðinn og var dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir morðið.

Heimild: Morgunblaðið 12. janúar 1988 – Dagblaðið Vísir þriðjudagur 14. janúar 1988

21. febrúar 1988

Rósa K. Harðardóttir (1961–1988) var myrt af eiginmanni sínum, Tryggva Erni Harðarsyni (1961–1988)

Rósa var skotin til bana af Tryggva í íbúð þeirra í Keflavík aðfaranótt sunnudags 21. febrúar.

Tryggvi hringdi á lögreglu og óskaði eftir aðstoð á Suðurgötu 29 eftir að hafa skotið Rósu. Lögreglumaður spurði Tryggva hvort hann væri í Sandgerði eða Keflavík og sagðist Tryggvi vera staddur í Keflavík. Svo heyrðist skothvellur og dynkur. Þegar lögreglu bar að garði fann hún bæði Rósu og Tryggva látin, en hann hafði svipt sig lífi.

Fyrr um kvöldið höfðu hjónin verið á dansleik og að sögn leigubílstjórans sem keyrði þau heim var ekki neitt óvenjulegt í fari þeirra. Það voru engin merki um átök í íbúðinni.

Heimild: Morgunblaðið 23. febrúar 1988

Bragi myrti Grétu á heimili þeirra við Klapparstíg í Reykjavík.
Húsið við Klapparastíg Bragi myrti Grétu á heimili þeirra við Klapparstíg í Reykjavík.

3. september 1988

Alda Rafnsdóttir (1963–1988) myrt af Guðmundi Sveinbjörnssyni (1967–)

Alda Rafnsdóttir var 25 ára einstæð móðir og bjó ein með sjö ára gömlum syni sínum við hlið foreldra sinna. Sonur Öldu átti afmæli fyrr um daginn og um kvöldið fór Alda á dansleik. Þar hitti hún hinn tvítuga Guðmund Sveinbjörnsson og fóru þau saman heim til hennar. Alda og Guðmundur fóru saman í herbergi hennar, en þar svaf sonur Öldu þungum svefni. Alda neitaði að láta fullkomlega að vilja Guðmunds og trylltist hann í kjölfarið. Í fyrstu tók hann hana kverkataki og sló hana síðan fast högg á vinstri kinn. Alda varð þá meðvitundarlaus og náði Guðmundur í hníf og stakk Öldu þrisvar sinnum í kviðarhol. Í þriðju stungu gekk allt hnífsblaðið í kviðarhol Öldu og var það dánarorsökin. Sonur Öldu svaf allan tímann meðan á verknaðinum stóð. Hann vaknaði þegar lögreglu bar að garði. Guðmundur reyndi tvisvar sinnum að fyrirfara sér eftir morðið. Hann fór að lokum á lögreglustöðina í Kópavogi og gaf sig þar fram. Guðmundur var dæmdur til fjórtán ára fangelsisvistar.

Heimild: Dagblaðið Vísir 25. janúar 1989

Alda ásamt syni sínum.
Alda Rafnsdóttir Alda ásamt syni sínum.

15. apríl 2000

Áslaug Óladóttir (1980–2000) myrt af Rúnari Bjarka Ríkharðssyni (1978–).

Rúnar Bjarki Ríkharðsson var 22 ára þegar hann var dæmdur í átján ára fangelsi fyrir morð á Áslaugu Óladóttur á heimili hennar í Skólavegi 2 í Keflavík. Hann var einnig dæmdur fyrir nauðgun og líkamsárás.

Rúnar var dæmdur fyrir að nauðga vinkonu Áslaugar og fyrrverandi sambýliskonu sinni tvívegis. Áslaug hafði vitnað gegn Rúnari í nauðgunarmálinu. Rúnar ruddist inn á heimili Áslaugar þann 15. apríl 2000 og stakk hana 28 sinnum með hnífi víða í líkamann. Í niðurstöðum dómsins kemur fram að aðför Rúnars að Áslaugu hafi verið tilefnalaus, hrottaleg og heiftúðug. Hann hafi ekki skirrst við að ryðjast inn á heimili hennar að næturlagi og stinga hana margítrekað í höfuð, háls, bringu og víða í líkama hennar þrátt fyrir að hún væri varnarlaus og nakin inni á baðherbergi.

Rúnar var ekki talinn eiga sér neinar málsbætur og var dæmdur til átján ára fangelsisvistar.

Heimild: Mbl.is 20. desember 2000

Rúnar Bjarki er laus úr fangelsi, en hann afplánaði aðeins tólf ár af átján ára dómi.
Rúnar Bjarki Rúnar Bjarki er laus úr fangelsi, en hann afplánaði aðeins tólf ár af átján ára dómi.

27. maí 2000

Áslaug Perla Kristjónsdóttir (1979–2000) myrt af Ásgeiri Inga Ásgeirssyni

Áslaug Perla lést af áverkum sínum eftir að hafa fallið af níundu hæð fjölbýlishúss í Kópavogi. Ásgeir Ingi Ásgeirsson var ákærður fyrir morðið en neitaði fyrst um sinn sök. Fyrir rétti komu tvö sjónarhorn fram, sjónarhorn verjanda var að um slys hefði verið að ræða, sjónarhorn sækjanda var að um morð hefði verið að ræða. Ákæruvaldið taldi öll gögn benda til að Ásgeir hafi ýtt Áslaugu yfir handriðið. Hann hafði borið hjá lögreglu að hann bæri ábyrgð á dauða hennar en ekki viljað greina frá hvernig það hefði borið að. Talið er að hann hafi orðið Áslaugu að bana því hún hafi neitað honum um samfarir. Í lögreglubíl frá vettvangi hótaði Ásgeir að myrða börn lögreglumanna eftir að hann myndi losna úr fangelsi. Ásgeir var dæmdur til fjórtán ára fangelsisvistar.

Heimild: Dagblaðið Vísir 13. desember 2000

Áslaug Perla Kristjónsdóttir var myrt af Ásgeiri Inga Ásgeirssyni.
Áslaug Perla Kristjónsdóttir Áslaug Perla Kristjónsdóttir var myrt af Ásgeiri Inga Ásgeirssyni.

4. júlí 2004

Sri Rahmawati (1970–2004) var myrt af barnsföður sínum, Hákoni Eydal

Hákon Eydal hlaut sextán ára fangelsisdóm fyrir að myrða Sri Rahmawati, barnsmóður sína. Saman áttu Sri og Hákon eitt barn, en fyrir átti Sri tvö börn. Sri var frá Indónesíu en hafði ásamt systur sinni og fjölskyldu hennar búið að Íslandi. Hákon og Sri kynntust fimm árum áður en hún lét lífið og bjuggu saman í sex mánuði.

Sri hafði lagt fram kærur á hendur Hákoni fyrir ofbeldisverk og hótanir í hennar garð. Hákon bar því við fyrir dómi að hann hefði myrt Sri eftir að hún hefði hótað að hann fengi ekki að sjá dóttur þeirra aftur.

Dómarar töldu Hákon ósannfærandi og sögðu atlöguna að Sri Rahmawati vera heiftarlega, bersýnilega og hann hafi framið verknaðinn af ásetningi.

Hákon myrti Sri með kúbeini og taubelti. Hann bar lík hennar inn í sturtuklefa og þreif það. Setti svo í poka og bar það út í bíl. Hann henti farsíma Sri í sjóinn og losaði sig við lík hennar í hraungjótu.

Lík Sri fannst í djúpri og þröngri hraunsprungu í Almenningi fyrir sunnan Hafnarfjörð 3. ágúst, mánuði eftir að Hákon myrti hana. Hákon var dæmdur í sextán ára fangelsi.

Heimild: Fréttablaðið 19. mars 2005

1. nóvember 2004

Sæunn Pálsdóttir (1979–2004) myrt af eiginmanni sínum, Magnúsi Einarssyni

Magnús Einarsson var dæmdur í ellefu ára fangelsi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína, Sæunni Pálsdóttur. Magnús banaði Sæunni á heimili þeirra í Hamraborg í Kópavogi aðfaranótt 1. nóvember 2004. Þau áttu tvö börn saman. Magnús réðst að Sæunni og þrengdi að hálsi hennar. Hann játaði verknaðinn bæði fyrir tengdaforeldrum sínum og lögreglu.

Samkvæmt mati sálfræðings og geðlæknis framdi Magnús verknaðinn þegar hann var í andlegu ójafnvægi vegna afbrýðisemi. Hjónaband þeirra hafði verið stormasamt um langt skeið. Fimm dögum eftir að Magnús myrti Sæunni höfðu þau ætlað að ganga frá skilnaði hjá Sýslumanninum í Kópavogi.

Heimild: Fréttablaðið 24. febrúar 2006

12. maí 2011

Þóra Elín Þorvaldsdóttir (1990–2011) myrt af sambýlismanni sínum og barnsföður, Axel Jóhannssyni

Axel Jóhannsson varð Þóru Elínu að bana í Heiðmörk. Hann kyrkti hana í bíl sínum og kom líki hennar fyrir í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Axel ók síðan á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann gaf sig fram. Axel var úrskurðaður ósakhæfur. Fyrir dómi bar Axel fyrir sig minnisleysi og því lá ekki hrein játning fyrir í málinu. Hann var vistaður á réttargeðdeildinni að Sogni. Axel og Þóra Elín áttu saman tveggja ára dreng.

Heimild: Pressan 9. ágúst 2011

Þóra Elín Þorvaldsdóttir skildi eftir sig tveggja ára son.
Þóra Elín Þóra Elín Þorvaldsdóttir skildi eftir sig tveggja ára son.
Axel Jóhansson leiddur fyrir dóm.
Axel Jóhansson Axel Jóhansson leiddur fyrir dóm.

3. febrúar 2012

Þóra Eyjalín Gísladóttir (1976–2012) myrt af unnusta sínum, Hlífari Vatnar Stefánssyni (1989-)

Þóra Eyjalín var stungin til bana í Hafnarfirði af unnusta sínum, Hlífari Vatnari. Hlífar kom sjálfur á lögreglustöð og tilkynnti um morðið. Þegar lögreglumenn komu að heimili Hlífars fundu þeir lík Þóru Eyjalínar sem hafði verið stungin ítrekað. Hún hafði verið látin í einn til tvo daga. Sumir áverkanna voru veittir eftir andlát samkvæmt blóðmeinafræðingi við réttarhöld. Vitnisburður hans varð til þess að nokkrir viðstaddir í réttarsalnum fóru að gráta.

Hlífar játaði á sig morðið og var metinn sakhæfur af geðlæknum. „Ég ætlaði engan veginn að drepa þessa manneskju. Þetta skeði bara,“ sagði Hlífar fyrir dómi og bar við minnisleysi. Hann var dæmdur í sextán ára fangelsi.

Heimild: DV.is 22. júní 2012

Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur fyrir dóm.

Hlífar Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur fyrir dóm.

Mynd: Mynd: Sigtryggur Ari

21. september 2017

Sanita Braun myrt

Sanita Braun var myrt þann 21. september 2017. Khaled Cario er grunaður um verknaðinn og hefur verið ákærður fyrir að hafa banað Sanitu Braune á heimili hennar við Hagamel. Kvöldið sem Sanita var myrt skoðaði Khaled tölvu hennar og sá þar að Sanita átti í samskiptum við aðra karlmenn. Hann hafi þá tryllst. Khaled játaði að hafa lamið Sanitu með glerflösku og slökkvitæki en neitar að árásin hafi leitt til dauða hennar. Málið stendur enn yfir.

Var myrt vegna afbrýðisemi.
Sanita Braune Var myrt vegna afbrýðisemi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Díegó fundinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2

Fjör og flottheit á forsýningu IceGuys 2