Í kjötdeilunni endurspeglast ótti ESB við að vörur komist frá Bretlandi inn á markaðssvæði ESB í gegnum Norður-Írland og Írland. Hjá breskum stjórnvöldum er það vilji þeirra til að sýna fram á sjálfstæði frá ESB sem endurspeglast í deilunni en þau verða á móti að taka tillit til málefna Norður-Írlands og aukinnar spennu þar og hættu á átökum lýðveldissinna og sambandssinna.
Í Brexitsamningnum er kveðið á um að Norður-Írland verði áfram aðili að tollabandalagi ESB og innri markaði sambandsins en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, féllst á þetta ákvæði til að reyna að tryggja áframhaldandi frið á Norður-Írlandi. Í samningnum er kveðið á um að eftir sex mánuði verði bannað að flytja ófrosið kjöt frá Bretlandi til Norður-Írlands en því hefur nú verið frestað til loka september. ESB heimilar ekki að ófrosið kjöt frá ríkjum utan sambandsins sé selt á innri markaði þess. Bretar eru ósáttir við þetta ákvæði hvað varðar Bretland og Norður-Írland.
The Guardian segir að í tilkynningu Framkvæmdastjórnar ESB um framlengingu á undantekningu á kjötskoðuninni komi fram að það sé markmið Framkvæmdastjórnarinnar að tryggja að friðarsamningurinn, sem tryggir frið og stöðugleika á Norður-Írlandi, haldi. Um leið verði reynt að forðast að landamærin á milli Norður-Írlands og Írlands lokist án þess þó að stefna innri markaði ESB í hættu.
Framkvæmdastjórnin varð því við ósk Breta um að framlengja undantekninguna en á móti lofa Bretar að breyta ekki lögum um kjötmeti næstu þrjá mánuði. Til að draga úr áhyggjum ESB um að kjötið komist ólöglega inn á innri markaðinn verður kjöt, sem er flutt frá Bretlandi til Norður-Írlands, nú merkt „UK only“ og verður aðeins selt í norðurírskum stórmörkuðum.