Rumsfeld var varnamálaráðherra á meðan George W. Bush var forseti Bandaríkjanna. Hann var varnarmálaráðherra þegar Bandaríkin hófu stríð gegn Írak og Afganistan í kjölfar árásarinnar á Bandaríkin 11. september 2001.
Rumsfeld gegndi einnig starfi varnarmálaráðherra í forsetatíð Geralds R. Ford. Þá var hann einnig um tíma þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
„Það er með sorg í hjarta sem við tilkynnum andlát Donald Rumsfeld, stjórnmálamanns og dyggs eiginmanns, föðurs, afa og langafa,“ sagði fjölskylda Rumsfeld í tilkynningunni þar sem greint var frá andlátinu.
Þá segir fjölskyldan að sagan muni minnast Rumsfeld fyrir „hans mögnuðu afrek á hans rúmlegu sex áratugum í þjónustu hans við almenning“ en þau muni hins vegar minnast hans fyrir óbilandi ást hans á eiginkonu sinni, fjölskyldu og vinum.
Mótaði ekki bara Bandaríkin
Rumsfeld mótaði þó ekki bara Bandaríkin sem varnamálaráðherra landsins heldur einnig hluta af Íslandi. Rumsfeld var nefnilega maðurinn sem lét loka herstöðinni í Keflavík.
Á fyrsta áratug 21. aldar var mikið rætt um framtíð NATO herstöðvarinnar í Keflavík. Þótti stöðin kostnaðarsöm, sér í lagi í ljósi þess að hernaðarumsvif Bandarikjanna á norðurslóðum voru lítil sem engin eftir fall Sovétríkjanna. Á sama tíma fóru umsvif Bandarikjanna í Afganistan og í Miðausturlöndum hratt vaxandi í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana.
Hugsanleg lokun herstöðvarinnar lá í loftinu í mörg ár og var auðvitað um mikið hita mál að ræða á Suðurnesjum og málið allt þrælpólitískt.
Árið 2004 hittust George W. Bush Bandaríkjaforseti og Davíð Oddsson forsætisráðherra Íslands á fundi í Hvíta húsinu. Í kjölfar fundarins sagði Davíð að málið hefði verið rætt þeirra á milli og að ekki væri búið að taka ákvörðun um að loka stöðinni. Skoða skyldu afleiðingar hugsanlegrar lokunar vel áður en ákvörðun um slíkt væri tekin. Þennan dag átti Bush afmæli og að sameiginlegum blaðamannafundi þeirra Bush og Davíð loknum sungu blaðamenn afmælissönginn fyrir afmælisbarnið.
Herstöðinni í Keflavík var svo lokað rétt rúmum tveimur árum síðar, eða í september 2006.
Lugu þeir að Davíð?
Í ævisögu sinni, Known and Unknown, sem kom út árið 2011 lýsti Rumsfeld því að hann hefði í þrjú ár þurft að berjast fyrir lokununni en bandaríska utanríkisráðuneytið undir stjórn Colin Powell vildi ekki loka stöðinni.
Það þýðir að þegar Bush sagði við Davíð að stöðinni skyldi ekki lokað var bandariska varnarmálaráðuneytinu langt komið með einmitt þær bollaleggingar sínar.
Kostnaðurinn við rekstur þessarar tilgangslausu herstöðvar á Íslandi, eins og Rumsfeld orðaði það, nam á því tímabili um 700 milljónum Bandaríkjadala, það eru um 87 milljarðar í íslenskum krónum á gengi dagsins í dag.