Maður sem nú er í haldi lögreglu eftir að hafa ógnað gestum á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni með hlaðinni skammbyssu var einnig handtekinn fyrir stórhættulega hnífstunguárás á veitingastaðnum Sushi Social í byrjun aprílmánaðar.
Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum eftir hnífstunguárásina og hefur hann gengið laus síðan eða allt þar til hann var handtekinn á flótta við Sæbraut í gær. Hann á talsverðan sakaferil að baki, meðal annars vegna fíkniefna- og ofbeldisbrota
Gestum á veitingastaðnum Sushi Social þann 7. apríl síðastliðinn var verulega brugðið þegar harkaleg slagsmál brutust út á staðnum. Afleiðingar slagsmálanna urðu þær að einn einstaklingur varð fyrir fjölmörgum stungusárum. Sárin reyndust þó ekki lífshættuleg. Árásin náðist upp á myndband sem fór í hraða dreifingu á samfélagsmiðlum og síðar fjölmiðlum.
Árásarmaðurinn, karlmaður rétt yfir þrítugt, var handtekinn skömmu síðar. Nokkra athygli vakti að ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum og var honum sleppt að lokinni yfirheyrslu. Ekki var talin þörf á því á grundvelli almannahagsmuna enda taldist málið að mestu upplýst.
Síðan hefur hnífstungumaðurinn gengið laus en tæpum þremur mánuðum síðar ruddist hann, eins og áður segir, með hlaðna skammbyssu inn á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni og ógnaði viðstöddum.
Þráinn Bj. Farestveit, framkvæmdastjóri Verndar áfangaheimilis fyrir fanga, var á vettvangi og sagði í samtali við Morgunblaðið að hans upplifun hafi verið á þá leið að maðurinn væri mættur til markvissra aðgerða með byssuna að vopni. Staðan sem upp kom hafi verið verulega ógnandi en ekki liggi fyrir hver hafi verið hugsanlegt skotmark árásarinnar.