Í Bretlandi hefur dauðsföllum af völdum COVID-19 ekki fjölgað samhliða fjölgun smita og það sama á við fjölda alvarlegra veikra. Í Rússlandi er sagan hins vegar önnur, þar fjölgar bæði dauðsföllum og alvarlega veiku fólki. Á mánudaginn létust 11 af völdum COVID-19 í Bretlandi en í Rússlandi voru það um 600 sem létust. Ástæðan fyrir þessum mun er að í Bretlandi er búið að bólusetja miklu fleiri.
Þegar kórónuveirufaraldurinn var í hámarki í janúar voru um 37.000 COVID-19 sjúklingar á breskum sjúkrahúsum. Nú eru þeir um 1.500. Ástæðan fyrir þessum mun er væntanlega að nú er búið að bólusetja um 60% fullorðinna en talið er að bólusetning dragi úr líkunum á að fólk veikist og að það verði minna veikt ef það smitast af veirunni.
Í Rússlandi gengur hægt að bólusetja því margir landsmenn hafa miklar efasemdir um bóluefnin. Þetta hefur nú orðið til þess að yfirvöld hafa gert það að skyldu fyrir fólk sem starfar hjá hinu opinbera og við þjónustustörf að láta bólusetja sig. Ef það gerir það ekki á það á hættu að missa vinnuna.